Lögreglumál. Handtaka. Leit. Ungmenni. Tilkynningar til forráðamanna og barnaverndaryfirvalda.

(Mál nr. 4974/2007)

Á árinu 2007 tók umboðsmaður Alþingis til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, mál er laut að handtöku fimm pilta vegna ætlaðs fíkniefna¬brots og eftirfarandi vistunar þeirra í fangageymslu aðfaranótt 18. mars 2007. Tildrög athugunar umboðsmanns voru þau að birst hafði í fjölmiðlum frásögn af handtöku ungmennanna. Einn þeirra var átján ára en hinir fjórir sextán ára að aldri. Jafnframt kom fram að piltunum hefði ekki fengið leyfi til að hringja í foreldra sína fyrr en klukkan tvö um nóttina, þeir hefðu verið afklæddir og hefði móðir eins þeirra tjáð fjölmiðlum að umræddir lögreglumenn hefðu sýnt af sér „fljótfærni og ónákvæmni“.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2010. Í svörum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurnum vegna málsins kom fram að umrætt mál hefði verið litið alvarlegum augum innan embættisins og að lögreglan teldi að alvarleg mistök hefðu átt sér stað í störfum hennar í málinu. Þá hefði lögreglan beðið piltanna og forráðamenn þeirra afsökunar og gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að fyrirbyggja slík mistök í framtíðinni. Í ljósi þessa, og að virtu því að málið var tekið til athugunar að eigin frumkvæði, taldi settur umboðsmaður að eins og á stæði væru ekki forsendur til að aðhafast frekar í tilefni af málinu.