A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra vegna máls sem lyktaði með endurákvörðun opinberra gjalda A. Málið hófst með rannsókn skattrannsóknarstjóra á viðskiptum með eignarhluti í fyrirtæki á árinu 2005. Skattrannsóknarstjóri ákvað síðan að vísa máli A og annars aðila til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar en mál þriðja aðilans var fellt niður. Tíu mánuðir liðu frá því að skýrsla var fyrst tekin af A þar til honum barst frumskýrsla skattrannsóknarstjóra. Þá liðu 20 mánuðir frá því að lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra var send ríkisskattstjóra þar til ríkisskattstjóri boðaði breytingar á skattskilum A. Kvörtun A beindist annars vegar að brotum gegn málshraðareglu og reglum um lögmælta afgreiðslufresti stjórnvalda og hins vegar að brotum gegn jafnræðisreglu. Á meðan á meðferð málsins stóð kom A jafnframt á framfæri ábendingum um tiltekin atriði í málsmeðferð þessara stjórnvalda. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í tilefni af ábendingum A og fleiri aðila hafði umboðsmaður m.a. til skoðunar að taka málshraða við rannsóknir skattamála til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Í ljósi þeirrar umfangsmiklu gagnaöflunar og úrvinnslu sem þarf til að fá nauðsynlega yfirsýn til slíkrar umfjöllunar varð það þó niðurstaða hans að hefja ekki frumkvæðisathugun á þeim atriðum að sinni. Hvað varðaði atvik í máli A sérstaklega, þá benti umboðsmaður á að yfirskattanefnd hefði, í úrskurði í tilefni af kæru A vegna endurákvörðunar opinberra gjalda hans gjaldárið 2001, komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð ríkisskattstjóra hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og farið hefði verið fram úr lögmæltum fresti til að kveða upp úrskurð um endurákvörðun, sbr.ákvæði 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en sá annmarki gæti þó ekki leitt til ógildingar á hinum kærðu ákvörðunum ríkisskattstjóra. Ekki var fjallað um málsmeðferð skattrannsóknarstjóra í úrskurðinum. Umboðsmaður tók undir athugasemdir yfirskattanefndar. Miðað við þær upplýsingar sem hann hafði almennt um málsmeðferðartíma skattrannsóknarstjóra fékk hann hins vegar ekki séð að í máli A hefði verið vikið verulega frá því sem almennt var á þessum tíma og þá að teknu tilliti til umfangs og eðlis málsins, án þess þó að taka afstöðu til þess hvort almennur málsmeðferðartími skattrannsóknarstjóra hefði á þessu tímabili verið nægjanlega í samræmi við almennar málsmeðferðarreglur, en til þess taldi umboðsmaður þurfa víðtækari athugun. Í samræmi við þetta og með tilliti til niðurstöðu yfirskattanefndar í máli A taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt í máli A. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu yfirskattanefndar að hafna því að hugsanlegt brot á jafnræðisreglu gæti leitt til ógildingar á ákvörðunum ríkisskattstjóra í máli A. Að fengnum skýringum skattrannsóknarstjóra á afgreiðslu mála mannanna þriggja, m.a. með tilliti til rannsóknarhagsmuna og þess hvort þau töldust líkleg til sakfellis og þar með endurálagningar opinberra gjalda, taldi umboðsmaður enn fremur að ekki væri tilefni til frekari athugunar á þessum þætti í kvörtun A en tók fram að honum kynni að vera fær sú leið að koma á athugasemdum sínum á framfæri við við fjármálaráðherra sem hefur samkvæmt 106. gr. laga nr. 90/2003 eftirlit með því að ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri ræki skyldur sínar. Að lokum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka til frekari athugunar það atriði í kvörtun A að í umsögn ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar í tilefni af kæru A hefði ekki verið vikið að þeirri málsástæðu A að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu. Í því sambandi vísaði umboðsmaður til þess að ef stjórnvald gætti þess ekki að leysa úr tilteknu máli í samræmi við lög leiddi ekki af því einu að annar aðili sem ætti sambærilegt mál hjá stjórnvaldinu ætti rétt á því að einnig væri leyst úr hans máli í ósamræmi við efnisreglur viðkomandi laga. Þá hefði yrði að líta til þess hvernig umsögn ríkisskattstjóra, sem fól í sér kröfugerð embættisins í málinu, var fram sett og jafnframt yrði ekki séð að þetta atriði hefði torveldað yfirskattanefnd að leysa úr máli A að þessu leyti. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til frekari athugunar á málinu og lauk umfjöllun sinni um það.