Lögreglu- og sakamál. Niðurfelling máls.

(Mál nr. 6756/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að hafna því að endurskoða ákvörðun lögreglustjóra um að hætta rannsókn á sakamáli vegna líkamsárásar. A var tilkynnt með bréfi, dags. 13. maí 2011, að rannsókn málsins hjá lögreglu hefði verið hætt. Honum var ekki leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest. Hinn 27. júlí 2011 var honum send ný tilkynning og þá leiðbeint um að unnt væri að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara. A lagði fram kæru sem barst ríkissaksóknara 17. ágúst 2011. Ákvörðun ríkissaksóknara um að vísa málinu frá var byggð á því að kærufrestur, sem var einn mánuður frá tilkynningu ákvörðunar, hefði verið liðinn þegar kæra A barst. A taldi að borið hefði að miða kærufrest við síðari tilkynninguna og kæran hefði því borist innan frests. A gerði jafnframt athugasemdir við að ríkissaksóknari hefði hafnað því að taka ákvörðun sína til endurskoðunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi að vanræksla lögreglu á að tilkynna um kæruheimild og kærufrest hefði ekki áhrif á upphafstímamark kærufrests en gæti hins vegar leitt til þess að víkja yrði frá ákvæðum um lögákveðna kærufresti, s.s. með því að stjórnvaldi gæti borið taka kæru til efnismeðferðar þrátt fyrir að hún bærist að liðnum kærufresti, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess að sakborningur hefur almennt ríka hagsmuni af því að máli á hendur honum sé endanlega lokið hafi hann fengið tilkynningu þess efnis, að ákvörðun um að hætta rannsókn máls er ætlað að vera endanleg ákvörðun nema skilyrði séu til endurupptöku málsins, að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur mjög verið litið til hagsmuna sakbornings þrátt fyrir andstæða hagsmuni brotaþola og að lokum þess að ekki er útilokað að heimildir til að víkja frá ákvörðun um endanlega niðurfellingu máls kunni að vera háðar takmörkunum vegna banns 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi taldi umboðsmaður sig hins vegar ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við að ekki hefðu verið skilyrði til að víkja frá lögmæltum kærufresti á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga.

Eftir að hafa farið yfir gögn málsins taldi umboðsmaður ekki heldur forsendur til að gera athugasemdir við það mat ríkissaksóknara að hafna endurupptöku málsins á þeim grundvelli að ný sakargögn hefðu ekki komið fram, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita ríkissaksóknara bréf og koma þeirri ábendingu á framfæri að gæta yrði meiri nákvæmni í bréfum embættisins.