Synjun innlánsstofnunar um ljósrit gagna, verður borin undir bankaeftirlit Seðlabanka Íslands.

(Mál nr. 1558/1995)

A kvartaði yfir því, að innlánsstofnun, hefði synjað honum um ljósrit tiltekinna gagna með tilvísun til ákvæða um bankaleynd í lögum um banka og sparisjóði. Í bréfi, er ég ritaði A 28. september 1995, sagði meðal annars svo:



"Samkvæmt 13. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, fer bankaeftirlit Seðlabanka Íslands með eftirlit með því, að innlánsstofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir, sem hverju sinni gilda um starfsemi þeirra.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um það, að ekki verði kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði, að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta rangar ákvarðanir, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 2561). Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur það lögboðna hlutverk að hafa eftirlit með því, að innlánsstofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög. Tel ég því rétt, eins og hér stendur á og með vísan til meginreglu þeirrar, sem 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 er byggð á, að þér berið málið undir bankaeftirlitið. Ef þér teljið niðurstöðu bankaeftirlitsins ekki viðunandi, er yður heimilt að bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis á ný, ef þér teljið yður enn beittan rangindum."