Opinberir starfsmenn. Starfsleyfi til kennslu.

(Mál nr. 8105/2014)

Málið varðaði kvörtun 75 einstaklinga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið synjaði um starfsleyfi til kennslu á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki lokið meistaraprófi. Kvörtunin beindist m.a. að broti á jafnræðisreglu en í henni var einnig fullyrt að í samskiptum við starfsfólk viðkomandi menntastofnana hefði ítrekað komið fram eða verið gefið í skyn að nemendur sem hófu nám sitt árið 2009 myndu ljúka námi samkvæmt eldra námsfyrirkomulagi og ættu rétt á útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæðum eldri laga, þ.e. að loknu bakkalárprófi.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. október 2014. Þar kom fram að hann gerði ekki athugasemdir við afstöðu ráðuneytisins í málinu og benti á að þrátt fyrir að einhverjir kynnu að hafa fengið gefin út leyfisbréf fyrir mistök leiddi það ekki til þess að aðrir ættu rétt á að fá umsóknir sínar afgreiddar í andstöðu við lagagrundvöll málsins.

Umboðsmaður taldi hins vegar ástæðu til að rita ráðuneytinu bréf vegna málsins. Þar lagði hann áherslu á að þó að einstökum menntastofnunum og öðrum sem bjóða upp á fræðslu væri á grundvelli laga veitt ákveðið frelsi um hvernig þeir haga námsframboði og inntaki náms sem þeir bjóða upp á geti það skipt einstaklingana sem í hlut eiga verulegu máli að upplýsingagjöf þessara aðila um nám á þeirra vegum taki mið af viðeigandi umgjörð laga og reglna, og eftir atvikum fjárframlögum. Hann benti einnig á að þegar ráðuneytið kæmi að breytingum á lögum eða reglum um tiltekið nám kynni að vera sérstök ástæða til þess að ráðuneytið hefði forgöngu um upplýsingagjöf um þær. Einnig þyrfti að huga að lagaskilum og réttmætum væntingum þeirra sem þegar hefðu hafið nám eða öðlast tiltekin réttindi og gæta þyrfti samræmis í afgreiðslu einstakra mála. Þótt frávik í því efni í einstökum tilvikum dygðu ekki til þess að aðrir ættu kröfur til sambærilegrar úrlausnar á grundvelli jafnræðisreglna mætti ljóst vera að slíkt gæti leitt til aðstöðumunar milli aðila sem væru í raun í sambærilegri stöðu. Hann lagði jafnframt áherslu á að slík vinnubrögð stjórnvalda væru ekki til þess fallin að stuðla að að viðhalda því trausti sem hann teldi að gæta þyrfti sérstaklega að í störfum stjórnsýslunnar. Að lokum áréttaði umboðsmaður að betur þyrfti að gæta að því að upplýsingagjöf til borgaranna, bæði af hálfu ráðuneytisins og þeirra menntastofnana sem starfa á málefnasviði þess, gæfi á hverjum tíma rétta mynd af því hvernig þær námsleiðir sem væru í boði hverju sinni féllu að skilgreiningum sem kæmu fram í lögum til þess að borgararnir gætu gert sér ljóst hver réttarstaða þeirra væri meðan á námi stæði og hvaða réttinda þeir gætu vænst að því loknu.

Í bréfi mínu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vísaði ég jafnframt til fyrri ábendinga og bréfa til ráðuneytisins um sama efni. Þær ábendingar og bréf eiga það sammerkt að þar hef ég vakið athygli ráðuneytisins á því að gæta þurfi betur að því að menntastofnanir hagi skipulagi og upplýsingagjöf um það nám sem þær bjóða upp á hverju sinni í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsheimildir viðkomandi stofnunar og námið. Í tengslum við sambærileg mál hef ég m.a. sent fyrirspurnir til ráðuneytisins sem lúta að fyrirkomulagi náms í félagsráðgjafadeild við Háskóla Íslands og hvort það samrýmist þeim lagareglum sem gilda um skipulag framhaldsnáms og töku gjalds fyrir það sem og reglum um endurmenntun á vegum háskólans. Þá hefur í bréfaskiptum mínum einnig verið verið vikið að fyrirkomulagi á útvistun námsbrauta, sbr. einnig umfjöllun í kafla I.4 í þessari skýrslu þar sem fjallað er um frumkvæðismál umboðsmanns.