Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Gjöld til lífsskoðunar- og trúfélaga.

(Mál nr. 8118/2014)

A kvartaði yfir því að á hann væri lagður skattur sem næmi upphæð sóknargjalds, 9.000 kr. á ári, umfram þá sem væru skráðir í lífsskoðunar- og trúfélög.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2014. Þar benti hann á að samkvæmt 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 væri öllum frjálst að standa utan trúfélaga og enginn væri skyldur til að inna af hendi persónulega gjöld til trúfélags sem hann ætti ekki aðild að. Í 3. mgr. sama ákvæðis kæmi fram að væri maður utan trúfélaga þá greiddi hann Háskóla Íslands þau gjöld sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Þessu mætti breyta með lögum. Þá benti umboðsmaður á að um gjöld til lífsskoðunar- og trúfélaga væri fjallað í lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl. Af ákvæðum þeirra laga leiddi að í reynd innheimti ríkið engin sóknargjöld heldur væru um að ræða að framlagið væri reiknað samkvæmt lögum á grundvelli tiltekinna viðmiða, þ.e. „hlutdeild í tekjuskatti“. Eftir breytingu sem hefði verið gerð á lögunum fengi Háskólasjóður Háskóla Íslands ekki lengur hlutdeild í tekjuskatti vegna einstaklinga sem væru ekki skráðir í trúfélög.

Samkvæmt framangreindu taldi umboðsmaður að fyrir lægi sú afstaða löggjafans að fjármögnun lífsskoðunar- og trúfélaga af hálfu ríkisins skyldi þannig háttað að þeim væri ætluð ákveðin hlutdeild í álögðum tekjuskatti en sérstakur skattur væri ekki lagður á í þeim tilgangi. Í þessu sambandi minnti umboðsmaður á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Almennt væri það því ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á því hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu.