Námslán og námsstyrkir. Úrskurðarskylda. Frávísun.

(Mál nr. 9345/2017)

A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) um að vísa frá stjórnsýslukæru þeirra vegna ákvörðunar stjórnar LÍN um að hafna því að fella niður fjárkröfu á hendur þeim vegna fyrningar. Frávísunin var byggð á því að LÍN hefði stefnt A og B til greiðslu sömu kröfu og þar sem mál er varðaði sama ágreiningsefni og lægi fyrir nefndinni væri rekið fyrir dómstólum bæri að vísa því frá.

Í settum lögum eru ekki beinar undantekningar frá úrskurðarskyldu málskotsnefndar LÍN þótt ágreiningi sem uppi er í kærumáli sé jafnframt vísað til úrlausnar dómstóls. Umboðsmaður taldi því að skoða yrði hvort slík niðurstaða gæti byggst á öðrum réttarreglum og gerði grein fyrir reglum sem gætu haft þýðingu í því sambandi. Umboðsmaður benti á að A og B hefðu ekki farið með málið sjálf fyrir dómstóla samhliða umfjöllun æðra stjórnvalds heldur hefði stjórnvaldið sem tók hina kærðu ákvörðun gert það. Í ljósi þess fékk umboðsmaður Alþingis ekki séð að mögulegur réttur LÍN að skjóta ágreiningsefninu til dómstóla hefði sjálfkrafa leitt til þess að réttur A og B til þess að fá leyst úr kæru sinni fyrir málskotsnefndinni félli niður né heldur að þessi staða hefði getað leitt til þess að lögvarðir hagsmunir þeirra af því að halda kærumáli sínu til streitu hefðu fallið brott. Í því sambandi benti umboðsmaður Alþingis á að þar sem iðulega lægi ekki fyrir fyrr en dómur hefur gengið hvort lögvarðir hagsmunir aðila máls af kærumeðferð á stjórnsýslustigi væru fallnir niður vegna dómsmáls og með frávísun málsins kynnu reglur um kærufresti að leiða til þess að möguleiki til þess að kæra málið til æðra stjórnvalds að nýju væru fallnir niður þegar dómur gengi. Ef fallist yrði á að stjórnvald gæti, á þeim grundvelli einum sem málskotsnefndin byggði á í úrskurði sínum, höfðað dómsmál vegna ágreiningsmáls sem kært hefði verið til æðra stjórnvalds eða úrskurðarnefndar með þeim afleiðingum að málinu yrði sjálfkrafa vísað frá kærustjórnvaldinu hefðu stjórnvöld það í hendi sinni að ónýta möguleika borgaranna til að fá leyst úr málum sínum með stjórnsýslukærum.

Umboðsmaður fékk því ekki séð að viðhlítandi lagagrundvöllur hefði verið fyrir fávísun málsins, eins og atvikum var háttað í máli þeirra A og B. Það var því niðurstaða umboðsmanns að úrskurður málskotsnefndar LÍN hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til málskotsnefndar LÍN að taka mál A og B til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni frá þeim þess efnis og að nefndin myndi leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem fram komu í álitinu. Þá beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.