Menningarmál. Greiðslur vegna afnota af bókum. Nafnleynd. Sönnunarkröfur.

(Mál nr. 9211/2017)

Rithöfundur sem ritað hefur undir dulnefninu Stella Blómkvist leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun úthlutunarnefndar samkvæmt 8. gr. laga nr. 91/2007, um bókmenntir, á greiðslum til sín fyrir notkun á þeim á bókasöfnum. Hann hafði á fjórtán ára tímabili sent erindi til úthlutunarnefndarinnar, sem í daglegu tali er nefndur bókasafnssjóður rithöfunda, án þess að upplýsa um nafn sitt þar sem hann hafði spurst fyrir um rétt sinn til greiðslna samkvæmt lögunum. Hann hafði fengið þau svör að hann yrði að senda inn umsókn með nafni sínu og kennitölu. Taldi hann að með þessu væri hann í reynd settur í þá stöðu að þurfa að velja á milli þess annars vegar að viðhalda nafnleyndinni og hins vegar lögbundins réttar til greiðslna fyrir afnot á bókum hans á bókasöfnum. Afstaða stjórnvalda í málinu, þ.e. úrskurðarnefndarinnar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins, var byggð á því að ekki væri unnt að sýna fram á að rithöfundurinn uppfyllti skilyrði laganna nema hann gæfi upp ákveðnar persónuupplýsingar, þar á meðal nafn sitt. Í því sambandi var m.a. vísað til þess að um persónulegan rétt væri að ræða sem falli t.d. niður við framsal höfundaréttar.

Settur umboðsmaður taldi að afstaða úthlutunarnefndarinnar fælu í sér of fortakslausar kröfur til sönnunar og væri þar með ekki í samræmi við lög enda ekki loku fyrir það skotið að höfundur geti fært viðhlítandi sönnur fyrir því að hann uppfyllti lagaskilyrði fyrir rétti til greiðslu með öðrum hætti. Það réðist síðan af mati nefndarinnar hverju sinni hvort nægilega hafi verið sýnt fram á rétt til greiðslu og þá eftir atvikum á grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem hún kýs að styðjast við í þeim efnum.

Settur umboðsmaður mæltist til þess að nefndin leysti úr máli höfundarins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væru grein fyrir í álitinu sækti hann formlega um greiðslur. Þá mæltist hann einnig til þess að nefndin tæki mið af þeim sjónarmiðum sem gerð væru grein fyrir í álitinu í framtíðarstörfum sínum.