Sjávarútvegsmál. Skiptaverð. Valdmörk. Kjarasamningar. Endurupptaka. Málshraði.

(Mál nr. 8870/2016)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð og áliti Verðlagsstofu skiptaverðs þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að A ehf. hefði gert upp við skipverja á skipinu X á ófullnægjandi hátt. Laut kvörtunin einkum að því að Verðlagsstofa hefði farið út fyrir valdmörk sín við útgáfu álitsins með því að leggja sjálf mat á hvaða kjarasamning ætti að miða við í uppgjörinu og með því að gefa út álit þrátt fyrir að ekki hefði legið fyrir misræmi milli gagna um söluverðmæti afla og gagna um verð sem uppgjörið var byggt á.

Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ráðstöfun Verðlagsstofu að gefa út álit í málinu þrátt fyrir að ekki hefði legið fyrir misræmi milli gagna um söluverðmæti og gagna um uppgjör aflahlutar til áhafnar, enda einnig hlutverk Verðlagsstofu að fylgjast með uppgjöri á aflahlut sjómanna. Hins vegar fékk umboðsmaður ekki séð að sú afstaða stjórnvalda í málinu, að ekki hefði verið ágreiningur milli aðila um hvaða kjarasamning bæri að leggja til grundvallar við uppgjörið, væri í samræmi við gögn málsins. Þar sem ekki væri að finna sjálfstæða og fullnægjandi heimild í lögum fyrir Verðlagsstofu til að leysa úr ágreiningi um hvaða kjarasamningur ætti við í hverju tilviki, líkt og stjórnvöld höfðu raunar sjálf byggt á, var það niðurstaða umboðsmanns að álit stofunnar í málinu hefði ekki verið í samræmi við lög.

Þá var það niðurstaða umboðsmanns að í ljósi framangreindra annmarka á áliti Verðlagsstofu hefði skilyrði til að fjalla um málið að nýju verið fyrir hendi þegar A ehf. óskaði eftir því. Synjun Verðlagstofu á henni hefði því ekki verið í samræmi við lög. Enn fremur hefði sá tími sem það tók stofuna að synja beiðni um endurupptöku málsins ekki verið í samræmi við óskráða málshraðareglu stjórnsýsluréttarins.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Verðlagsstofu að taka álitið til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá A ehf., og að leyst yrði úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í áliti hans auk þess að Verðlagsstofa tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum í störfum sínum.