Húsnæðismál. Leiðrétting fasteignaveðlána. Ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar. Lagaheimild.

(Mál nr. 8670/2015)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði  úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þess efnis að leiðréttingarfjárhæð A samkvæmt lögum þar um skyldi ráðstafað til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðláns eiginmanns hennar. Að mati A fékk hún þannig ekki notið þess hagræðis sem hún taldi sig eiga rétt á. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var reist á því að þegar A samþykkti leiðréttinguna hefði hún verið í hjúskap og að í þeim tilvikum gerði reglugerð, sem sett hafði verið á grundvelli laganna, ráð fyrir að unnt væri að ráðstafa fjárhæðinni með framangreindum hætti, óháð því að hún hefði sótt um sem einstaklingur og að hún hefði hvorki verið í hjúskap á leiðréttingartímabili laganna né þegar hún sótti um. Lagði nefndin jafnframt til grundvallar að þótt ekki væri kveðið á um þessa ráðstöfun með beinum hætti í lögunum væri ljóst af afmörkun laganna og uppbyggingu þeirra að svo væri og að tiltekin ákvæði í lögunum veittu reglugerðarákvæðinu lagastoð.

Það var niðurstaða setts umboðsmanns að ákvæði laganna um umsókn og ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar, sem stjórnvöld höfðu sérstaklega vísað til, og lögskýringargögn að baki þeim, hefðu ekki að geyma viðhlítandi heimild til að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð A til eiginmanns hennar með þeim hætti sem gert var í málinu. Hið sama ætti við um önnur ákvæði laganna. Þá benti settur umboðsmaður á að framangreind ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar fæli í sér frávik frá grundvallarreglum um fjármál hjóna en gera yrði kröfu um að slík frávik kæmu skýrt fram í lögum. Þá gætu meginreglur um vernd eignarréttinda haft þýðingu fyrir túlkun á þeim lagareglum sem reyndi á í málinu.

Að lokum tók settur umboðsmaður til skoðunar hvort ákvæði í reglugerðinni hefði getað verið grundvöllur fyrir ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðarinnar með umræddum hætti. Tók hann fram að í lögunum væri ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um framkvæmd þeirra en í þeim væri ekki að finna þá efnisreglu sem fram kæmi í reglugerðinni. Var það því álit hans að reglugerðarákvæðið fæli ekki einungis í sér framkvæmd leiðréttingar heldur fælist í því efniregla um inntak réttarins til leiðréttingar sem ekki væri að finna í lögunum. Því var það niðurstaða hans að reglugerðarákvæðið, eins og það var túlkað af stjórnvöldum, ætti sér ekki viðhlítandi lagastoð. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá A, og að tekin yrði afstaða til þess hvort þörf væri á að taka til endurskoðunar önnur sambærileg mál.