Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Stjórnsýslunefnd. Kæruheimild. Stjórnvaldsfyrirmæli.

(Mál nr. 9547/2017)

Fjórir einstaklingar leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir ákvörðun prófnefndar viðurkenndra bókara um að synja þeim um skráningu í hluta prófs til að öðlast viðurkenningu sem bókari. Athugun umboðsmanns laut að þeirri afstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að prófnefndin væri sjálfstæð stjórnsýslunefnd og ákvarðanir hennar væru því lokaákvarðanir á stjórnsýslustigi sem væru þar með ekki kæranlegar til ráðuneytisins.

Umboðsmaður taldi að þar sem lög um bókhald kvæðu ekki skýrt á um sjálfstæði prófnefndarinnar og ekki væri unnt að draga þá ályktun af lögskýringargögnum yrði ekki annað ráðið, í samræmi við grundvallarreglur stjórnarskrár um stigskiptingu stjórnsýslunnar, en að nefndin væri lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Það var því álit umboðsmanns að afstaða ráðuneytisins, þess efnis að prófnefnd viðurkenndra bókara væri sjálfstætt stjórnvald, væri ekki í samræmi við lög. Af þessari niðurstöðu leiddi að ákvarðanir nefndarinnar væru almennt kæranlegar til ráðuneytisins á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttarins um kærurétt aðila máls til æðra stjórnvalds. Umboðsmaður taldi því jafnframt að ákvæði í reglugerð um próf til viðurkenningar bókara, þess efnis að ákvarðanir prófnefndarinnar væru endanlegar á stjórnsýslustigi, ætti sér ekki stoð i lögum að því leyti sem það kynni að taka til ákvarðana sem féllu undir kæruheimild til ráðuneytisins samkvæmt lögum.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka ákvæði reglugerðarinnar til endurskoðunar auk þess að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu bærust því stjórnsýslukærur vegna ákvarðana prófnefndarinnar.