Fangelsismál. Agaviðurlög. Málsmeðferð. Frestir. Andmælareglan. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 9456/2017)

A, fangi í fangelsinu Litla-Hrauni, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem staðfest var sú ákvörðun forstöðumanns fangelsisins að A skyldi sæta agaviðurlögum þar sem hann hefði gerst brotlegur við reglur fangelsisins með því að umbrotsefni kókaíns hefðu mælst í þvagi hans. Við meðferð sína á málinu byggði ráðuneytið m.a. á umsögn forstöðumanns fangelsisins sem barst sama dag og úrskurðurinn var upp kveðinn en á þeim degi rann út lögbundinn fjögurra daga úrskurðarfrestur ráðuneytisins til að fjalla um kæruna. Því gafst ekki tími til að veita A færi á að tjá sig um efni umsagnarinnar.

Umboðsmaður tók fram að ekki yrði séð að ráðuneytið hefði farið fram á að forstöðumaðurinn skilaði umsögninni innan tiltekinna tímamarka svo unnt yrði að leggja mat á hvort rétt væri að veita A andmælarétt vegna hennar. Því taldi umboðsmaður að umtalsvert hefði skort á að ráðuneytið hagaði skipulagi og verklagi málsmeðferðarinnar í samræmi við þær kröfur sem gera yrði til málsmeðferðar í kærumálum vegna agaviðurlaga.

Þá tók umboðsmaður fram að hann teldi ekki fyllilega ljóst hvort þær upplýsingar sem fram komu í umsögn forstöðumannsins um fyrri atvik hefðu áður komið við sögu við meðferð málsins hjá fangelsisyfirvöldum. Hefði það verið raunin að upplýsingar um þessi fyrri atvik hefðu ekki komið við sögu þegar ákvörðun um agaviðurlögin var tekin eða við síðari meðferð málsins taldi umboðsmaður að það hefði verið í betra samræmi við reglur um andmælarétt aðila að veita A færi á að tjá sig um þær áður en ráðuneytið úrskurðaði í málinu.

Loks taldi umboðsmaður að ráðuneytinu hefði verið rétt að sjá til þess að kannað væri sérstaklega hvort þær skýringar A, að fíkniefnunum hefði verið komið fyrir í mat eða drykk í hans eigu, ættu við rök að styðjast m.a. í þeim tilgangi að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort tilefni væri til frekari rannsóknar á staðhæfingum A. Það var því niðurstaða umboðsmanns að úrskurður ráðuneytisins í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að taka mál A til endurskoðunar kæmi fram beiðni þess efnis. Auk þess beindi umboðsmaður þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það hagaði framvegis afgreiðslu stjórnsýslukæra vegna agaviðurlaga í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu.