Skipulags- og byggingarmál. Afturköllun. Stjórnvaldsákvörðun.

(Mál nr. 9440/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi um að fella ekki úr gildi þar tilgreint leyfi til reksturs gistiheimilis í grennd við heimili A var staðfest. Athugun umboðsmanns laut fyrst og fremst að þeirri afstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að ekki væri til staðar lagaheimild til þess að fella umrætt leyfi úr gildi þrátt fyrir að það væri haldið verulegum annmörkum að mati ráðuneytisins.

Umboðsmaður benti á að þar sem ákvörðun um veitingu leyfis til rekstrar gistiheimilis væri stjórnvaldsákvörðun giltu stjórnsýslulög um hana, þ.m.t. hin almenna afturköllunarheimild stjórnvalda. Þegar ákvörðun stjórnvalds væri haldin málsmeðferðarannmarka kynni hún að vera ógildanleg ef hann teldist verulegur og veigamiklar ástæður mæltu ekki gegn því. Það var því álit umboðsmanns að afstaða ráðuneytisins, þess efnis að ekki væri til staðar lagaheimild til þess að fella rekstrarleyfið úr gildi, væri ekki í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki málið til nýrrar meðferðar kæmi fram beiðni þess efnis frá A auk þess að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.