Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Opinberir starfsmenn. Lögmætisreglan. Stjórnvaldsákvörðun. Málshraði.

(Mál nr. 9248/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði m.a. yfir afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum í tengslum við frádrátt Fjársýslu ríkisins af launum hans vegna vinnuréttargjalds til Læknafélags Íslands (LÍ). Frádrátturinn var m.a. byggður á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem A stóð utan stéttarfélaga og var ekki félagsmaður í LÍ. Ráðuneytið hafði veitt A tilteknar upplýsingar úr umbeðnum gögnum en hvorki afhent A afrit af gögnunum að öllu leyti né að hluta. 

Umboðsmaður tók fram að af afgreiðslu ráðuneytisins og skýringum þess yrði ekki ráðið á hvaða lagagrundvelli A hefði verið synjað um aðgang að gögnum en svo virtist sem það hefði hvorki byggt á stjórnsýslulögum né upplýsingalögum. Umboðsmaður benti á að það leiddi af lögmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar að fella þyrfti beiðnir um aðgang að gögnum í réttan lagalegan farveg. Féllu slíkar beiðnir nær undatekningarlaust annaðhvort undir gildissvið stjórnsýslulaga eða upplýsingalaga. Það yrði því að teljast verulegur annmarki á stjórnsýsluráðuneytisins teldi það heimilt að afgreiða slíkar beiðnir án þess að byggja á lögum sem fjölluðu um rétt til aðgangs að gögnum.

Þá var það niðurstaða umboðsmanns að þar sem frádráttur vinnuréttargjalds af launum A byggðist á einhliða ákvörðun ráðherra sem tekin var á grundvelli laga um það hvaða kjarasamningur gilti í tilviki A, en ekki á samningi sem hann var aðili að, hefði verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Beiðni A um aðgang að þeim gögnum sem lágu til grundvallar frádrættinum var sett fram í tengslum við þessa ákvörðun og því hefði ráðuneytinu borið að afgreiða beiðnina á grundvelli stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því að afgreiðsla ráðuneytisins á gagnabeiðni A hefði ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti og enn fremur ekki í samræmi við meginreglu um málshraða. Að lokum taldi umboðsmaður tilefni til að koma því á framfæri að betur yrði hugað að stjórnsýslulegri meðferð mála þar sem ríkisstarfsmenn stæðu utan stéttarfélaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að leyst yrði þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í áliti hans. Jafnframt að ráðuneytið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum í störfum sínum.