Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð. Umönnunargreiðslur. Vistun utan heimilis. Rannsóknarregla. Skyldubundið mat.

(Mál nr. 9205/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja A um umönnunargreiðslur vegna barns sem var í varanlegu fóstri hjá A. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggðist einkum á því að vistun barnsins hjá A væri greidd af félagsmálayfirvöldum og að barnið væri vistað utan heimilis í skilningi laga um félagslega aðstoð og reglugerðar á grundvelli þeirra. Af því leiddi að A ætti ekki rétt á umönnunargreiðslum. Athugun umboðsmanns laut að því hvort ákvörðun úrskurðar­nefndarinnar hefði að þessu leyti verið í samræmi við lög og málsmeðferð nefndarinnar hefði verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat og rannsókn máls.

Í lögum um félaglega aðstoð er heimild til að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar er m.a. mælt fyrir um að vistun utan heimils skerði greiðslur. Umboðsmaður benti á að við túlkun á lagaákvæðinu yrði að líta til ákvæða annarra laga sem fjölluðu um heimili og vistun utan heimilis. Lög gerðu almennt ráð fyrir að fósturbörn ættu lögheimili hjá fósturforeldrum. Þá gerðu barnaverndarlög greinarmun á úrræðum sem annar vegar fælust í því að barni væri ráðstafað í fóstur og hins vegar þegar barn væri vistað utan heimilis. Það var því niðurstaða umboðsmanns að með orðunum „vistun utan heimilis“ í lögum um félagslega aðstoð væri fyrst og fremst átt við það þegar barn dveldist annars staðar en í heimahúsi þess framfæranda sem sækir um umönnunargreiðslur. Ráðstöfun barns í varanlegt fóstur, þar sem barnið byggi hjá fósturforeldri sem bæri að framfæra það, teldist því ekki eitt og sér vistun utan heimilis í skilningi ákvæðisins. Þá taldi umboðsmaður að túlka yrði umdeilt reglugerðarákvæði, um að umönnunargreiðslur féllu niður ef vistun væri greidd af félagsmálayfirvöldum, til samræmis við framangreint lagaákvæði og barnaverndarlög. Því væri ekki unnt að líta svo á að um væri að ræða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi reglugerðarinnar.

Umboðsmaður tók einnig fram að hann fengi ekki séð að greiðslur sveitarfélags til fósturforeldris á grundvelli barnaverndarlaga leiddu lögum samkvæmt sjálfkrafa til þess að foreldrið ætti ekki rétt á umönnunargreiðslum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Þá benti hann á að í máli A hefði úrskurðarnefndin ekki aflað afrits af gildandi fóstursamningi eða frekari upplýsinga um inntak greiðslna sem A fékk vegna fóstursins. Það var því niðurstaða hans að málið hefði að þessu leyti ekki verið nægjanlega upplýst eða að fram hefði farið það einstaklingsbundna mat á aðstæðum A sem lög um félagslega aðstoð gerðu ráð fyrir.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá A, og að meðferð málsins yrði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í áliti hans. Jafnframt mæltist hann til þess að nefndin tæki mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu í framtíðar störfum sínum. Tryggingastofnun var einnig sent álitið til upplýsinga.