Skattar og gjöld. Fjallskil. Þjónustugjöld. Svör stjórnvalds til umboðsmanns Alþingis. Stjórnvaldsákvörðun.

(Mál nr. 9305/2017)

A, eigandi jarðarinnar X í Borgarbyggð, leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að þurfa að greiða fjallskilagjald sem eigandi jarðarinnar jafnvel þótt A hefði ekki átt þess kost að nota til búfjárbeitar nein þau lönd þar sem kostnaður við sameiginleg fjallskil í Borgarbyggð féll til af. Kvörtunin beindist að ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi sem hafði staðfest álagningu stjórnar fjallskilaumdæmis fyrir jörðina. Laut athugun umboðsmanns einkum að þeirri afstöðu sýslumannsins að í lögum um afréttamálefni og fjallskil væri skattlagningarheimild fyrir sveitarfélög, sem væri óháð eiginlegri nýtingu, upprekstrarrétti eða kostnaði sem til félli við fjallskil. 

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um afréttamálefni og fjallskil, og forsögu þeirra. Benti hann á að hann hefði áður fjallað um sambærilegt álitaefni í áliti frá 12. september 2000, í máli nr. 2638/1999. Eins og þar kæmi fram kvæðu lögin á um tiltekna niðurjöfnun kostnaðar sem leiddi af fjallskilum og væri niðurjöfnun bundinn við þann kostnað. Gjaldtaka mætti því ekki vera umfram kostnað af fjallskilum hverju sinni og því um þjónustugjald að ræða. Hluti kostnaðar sem til félli vegna fjallskila, eða annar kostnaður sveitarfélaga, yrði því ekki lagður á alla eigendur jarða heldur eingöngu á þá aðila sem ættu rétt til að nýta umrædda þjónustu. Umboðsmaður tók fram að ekki yrði séð að A hefði sem eigandi jarðarinnar X átt þess kost að nota til búfjárbeitar nein þau lönd þar sem kostnaður við sameiginleg fjallskil í Borgarbyggð féll til. Af því leiddi að hann taldi úrskurð sýslumanns ekki í samræmi við lög. 

Umboðsmaður fjallaði jafnframt sérstaklega um svör sýslumannsins á Vesturlandi við fyrir­spurnum umboðsmanns vegna málsins. Kom hann þeirri ábendingu á framfæri að sýslumaður gerði viðeigandi ráðstafanir til að þau svör sem embættið sendi umboðsmanni væru framvegis betur úr garði gerð. Þá vék umboðsmaður að þeirri afstöðu Borgarbyggðar, sem hafði komið fram í svörum til hans, að vegna réttaróvissu yrði ekki tekin afstaða til beiðni A um endurgreiðslu fjallskilagjalda. Umboðsmaður benti á að sú afstaða sveitarfélagsins gæti ekki leyst það undan því að ljúka stjórnsýslumálinu gagnvart A í formi ákvörðunar. Stjórnvöld yrðu á hverjum tíma að leysa úr þeim málum sem þeim væru falin með hliðsjón af málsatvikum og þeim lagagrundvelli sem gilti um viðkomandi málaflokk.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sýslumannsins á Vesturlandi að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og haga þá úrlausn þess í samræmi við þau sjónarmið sem kæmu fram í álitinu. Þá beindi hann því til Borgarbyggðar að taka beiðni A um endurgreiðslu fjallskilagjalda til efnislegrar afgreiðslu. Þá mæltist hann loks til þess að þessi stjórnvöld hefðu þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.