Almannatryggingar. Sjúkratryggingar. Hjálpartæki. Lögmætisreglan. Jafnræðisreglur. Málefnaleg sjónarmið.

(Mál nr. 9656/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun sjúkratrygginga um að synja A um styrk til kaupa á hjálpartæki, svonefndum neyðarhnappi. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggðist einkum á því að samkvæmt ákvæði í fylgiskjali með reglugerð um styrki vegna hjálpartækja tæki greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna öryggiskallkerfa ekki til íbúða á vegum sveitarfélaga. Þar sem A leigði íbúð af sveitarfélaginu X ætti hún ekki rétt á styrknum. Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort umrætt reglugerðarákvæði ætti sér fullnægjandi lagastoð, m.t.t. laga um sjúkratryggingar og reglna um jafnræði og málefnalegra sjónarmiða, og þar með hvort niðurstaða nefndarinnar í máli A hefði verið í samræmi við lög. 

Umboðsmaður benti á að af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar leiddi að ef gera ætti mun á réttindum og skyldum manna yrði það að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og á grundvelli laga. Ekki yrði séð af lögum um sjúkratryggingar að ráðherra hefði verið fengin skýr heimild til að gera mun á milli sjúkratryggðra einstaklinga um greiðsluþátttöku vegna hjálpartækja á grundvelli búsetu eða annarra persónulegra atriða. Eins og umrætt reglugerðarákvæði var orðað, og stjórnvöld höfðu túlkað það, hefðu þeir sem héldu einkaheimili sín í leiguíbúð á vegum sveitarfélaga alfarið verið útilokaðir frá styrk til kaupa á neyðarhnapp jafnvel þótt þar væri ekki veitt þjónusta eða önnur aðstoð sem kæmi í stað neyðarhnapps.

Að því sögðu benti umboðsmaður á að einstaklingar sem héldu einkaheimili sín í leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga væru að lögum almennt í sambærilegri stöðu og þeir sem héldu einkaheimili í öðrum leigu- og eignaríbúðum. Þá fékk hann ekki séð að umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um úthlutunarreglur íbúða sveitarfélagsins X breytti nokkru um aðstöðu íbúa m.t.t. neyðarhnapps enda lytu þær ekki að slíkri þjónustu. Því hefði ekki verið lagt mat á og færð rök fyrir heimild ráðherra til framangreindrar mismununar sjúkratryggðra af hálfu nefndarinnar. Það var því álit umboðsmanns að sú forsenda stjórnvalda að ráðherra hefði verið heimilt í reglugerð að útiloka sjúkratryggða einstaklinga með þessum hætti alfarið frá greiðsluþátttöku vegna neyðarhnapps, hefði ekki byggst á fullnægjandi lagagrundvelli. Úrskurður úrskurðarnefndar­innar í máli A hefði því ekki verið í samræmi við lög. Þá var það niðurstaða umboðsmanns að meinbugir væru á umræddu reglugerðarákvæði að því marki sem þar væri kveðið á um að greiðsluþátttaka ætti ekki við um íbúðir á vegum sveitarfélaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá A, og að meðferð málsins yrði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í áliti hans. Þá mæltist hann til þess að ráðherra heilbrigðismála og sjúkratryggingastofnun tækju mál þeirra einstaklinga sem væru í sambærilegri stöðu og A til endurskoðunar. Jafnframt mæltist hann til þess að umrædd stjórnvöld tækju mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu í framtíðar störfum sínum.