Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Kjarasamningar. Greiðslur til maka látins starfsmanns. Dánarbú. Skattar og gjöld. Svör stjórnvalda við erindum sem þeim berast.

(Mál nr. 9672/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að Kópavogsbær hefði greitt konu „laun“ sem maka látins föður hans samkvæmt ákvæði kjarasamnings en skráð þau á dánarbú mannsins og gefið út launaseðla og launamiða á nafn þess látna og kennitölu. Af því leiddi m.a. að ríkisskattstjóri áætlaði tekjutengda skatta á dánarbúið. Athugun umboðsmanns beindist að þeim atriðum sem sneru að A sem bar ábyrgð á dánarbúi föður síns, einkum fyrirkomulagi greiðslnanna og samskiptum A við sveitarfélagið vegna málsins.

Umboðsmaður benti á að við andlát föður A hefði dánarbú hans tekið við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann hefði átt þá eða notið, nema annað leiddi af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Dánarbú látins starfsmanns gæti ekki tekið við „launum“ sem aðeins maki hans ætti rétt til samkvæmt ákvæði kjarasamnings. Skattskil vegna slíkra greiðslna væru dánarbúinu óviðkomandi, enda um að ræða tekjur makans sem teldist þá jafnframt launamaður í skilningi laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og bæri því að draga frá opinber gjöld af greiðslunni í nafni hans. Þá hefði Kópavogsbær ekki fært fram neinar þær skýringar sem réttlættu að launaseðlar hefðu verið gefnir út í nafni látins manns við þessar aðstæður eða að greiðslurnar hefðu ekki verið stílaðar beint á viðtakanda þeirra í samræmi við lög og reglur þar um. Fyrirkomulag sveitarfélagsins á greiðslunum hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Í tilefni af samskiptum Kópavogsbæjar við A vegna málsins, og skýringum þess til umboðsmanns, taldi umboðsmaður jafnframt tilefni til að árétta að þegar stjórnvöld ættu í hlut væri mikilvægt að svör þeirra væru skýr. Slíkt væri einnig liður í að viðhalda trausti á starf viðkomandi stjórnvalds.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að leitað yrði leiða til að rétta hlut A hefði hann orðið fyrir tjóni vegna fyrirkomulags greiðslnanna, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að sveitarfélagið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.