Atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur. Birting. Rannsóknarreglan. Sönnun. Rafræn meðferð stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 9708/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði vísað frá kæru hennar á ákvörðun Vinnumálastofnunar um að krefja hana um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Var kærunni vísað frá þar sem hún hefði borist að liðnum kærufresti. Athugun umboðsmanns beindist einkum að þeirri afstöðu úrskurðarnefndarinnar að birting ákvörðunar­innar af hálfu Vinnumálastofnunar hefði verið fullnægjandi og þar með þeirri forsendu nefndarinnar að kærufrestur hefði verið liðinn þegar kæra barst.

Umboðsmaður benti á að af kæru A til úrskurðarnefndarinnar og upplýsingum frá Vinnumála­stofnun yrði ráðið að atvik málsins er lutu að birtingu ákvörðunar stofnunarinnar hefðu verið umdeild. Þannig hefði stofnunin vísað til þess að ákvörðunin hefði verið send með bréfpósti á lögheimili A í september 2017. A hafði aftur á móti byggt á að henni hafi fyrst verið kunnugt um ákvörðunina í janúar 2018 þegar hún sá kröfu í heimabanka sínum og þá jafnframt fengið upplýsingar í síma frá Vinnumálastofnun um að ákvörðunin hefði verið birt á mínum síðum stofnunarinnar. Umboðsmaður vísaði til þess að við þessar aðstæður hefði nefndinni borið að kanna nánar þau atriði sem deilt var um áður en sönnunarreglum var beitt til þess að leiða málið til lykta. Úrskurðarnefndin hefði eigi að síður lagt til grundvallar upplýsingar frá Vinnumálastofnun sem hefðu verið í andstöðu við upplýsingar frá A, án þess að kalla eftir gögnum frá stofnuninni sem sýndu eða leiddu að því líkur að ákvörðunin hefði verið send í bréfpósti eða að gera reka að því að upplýsa málið að þessu leyti með öðrum hætti. Af þeim sökum taldi umboðsmaður að rannsókn málsins hefði verið ófullnægjandi.

Úrskurðarnefndin hafði jafnframt byggt á því að heimilt hefði verið að birta ákvörðunina rafrænt á mínum síðum hjá Vinnumálastofnun á grundvelli ákvæðis í lögum um atvinnuleysistryggingar. A hefði fengið tölvupóst með upplýsingum um að hennar biðu ný skilaboð á mínum síðum. Í þessum efnum benti umboðsmaður á að heimild laganna væri bundin við það tímabil á meðan á atvinnuleit stæði. A hefði lokið atvinnuleit eigi síðar en í mars 2014. Þegar ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin í september 2017 hafi atvinnuleit hennar verið löngu lokið. Því hafi rafræn birting ákvörðunarinnar með þessum hætti ekki getað byggt á umræddu ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar.

Umboðsmaður benti að lokum á að þegar nýtt stjórnsýslumál hófst hjá Vinnumálastofnun þar sem farið var fram á endurgreiðslu atvinnuleysisbóta hefði stofnunin tilkynnt A um málið og veitt henni kost á að tjá sig um efni þess. Stofnunin hefði m.a. veitt A kost á að senda upplýsingar á tilgreint tölvupóstfang stofnunarinnar, sem A gerði frá tilteknu tölvupóstfangi sínu. Í þágu rafrænnar meðferðar stjórnsýslumálsins hefði Vinnumálastofnun því ekki getað tilkynnt A um ákvörðunina um annað tölvupóstfang en A hafði notað í því máli. Umboðsmaður taldi því að rafræn birting ákvörðunarinnar hefði ekki heldur verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefndin tæki mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram ósk þess efnis frá henni, og að nefndin hagaði þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Jafnframt mæltist umboðsmaður til þess að nefndin tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.