Atvinnuréttindi. Kennsluréttindi. Rannsóknarreglan. Leiðbeiningarskylda. Málshraði. Svör til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 9317/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun Menntamálastofnunar á umsókn hennar um leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari hér á landi. Umsókn A hafði verið synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki menntunarskilyrði laga þar sem hún hefði einungis leikskólakennaramenntun sem samsvaraði BA-prófi.   A byggði kvörtun sína á því að hún hefði meistarapróf frá skóla í X sem leikskólakennari, að hún hefði starfað þar sem deildarstjóri á leikskóla í þrjú ár og að hún ætti að geta starfað hér á grundvelli EES-samningsins. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort málsmeðferð mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem fór með ákvörðunarvaldið í máli A, hefði verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu og rannsókn máls.

Umboðsmaður benti á að hægt væri að veita slíkt leyfi ef umsækjandi uppfyllti skilyrði um menntun í skilningi laga en einnig væri hægt að staðfesta leyfi sem umsækjandi hefði þegar aflað í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA. A hefði ekki verið leiðbeint sérstaklega um að leggja fram gögn um viðurkennd kennsluréttindi í heimalandi umfram upplýsingar sem komu fram á umsóknareyðublaði og ekki hefði verið lagt mat á hvort hún uppfyllti skilyrði um réttindi aflað í ríki innan EES. Við athugun umboðsmanns á málinu hefði jafnframt komið í ljós að ráðuneytið hefði ekki tekið tillit til allra gagna sem lágu fyrir í málinu um menntun A. Var það niðurstaða umboðsmanns að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki lagt fullnægjandi mat á umsókn A um leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari og þar með hvort hún uppfyllti skilyrði laga til þess. Ákvörðun þess hefði því ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Umboðsmaður taldi jafnframt ekki séð að ráðuneytið hefði tryggt að í máli A hefðu legið fyrir fullnægjandi upplýsingar til að hægt væri að taka afstöðu til hvort fallast ætti á umsókn hennar. Ráðuneytinu hefði því borið að kalla eftir gögnum frá Menntamálastofnun og afla frekari upplýsinga um menntun og starfsréttindi A áður en tekin var ákvörðun í málinu, eftir atvikum með því að beina því til hennar að leggja fram ítarlegri upplýsingar um þessi atriði. Þar sem þess var ekki gætt var það niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð ráðuneytisins hefði að þessu leyti ekki fullnægt þeim kröfum sem leiddu af reglum stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu og rannsókn máls. Þá var það niðurstaða umboðsmanns að athafnaleysi ráðuneytisins þegar því varð ljóst að það hafði ekki tekið tillit til allra gagna í máli A, en taldi samt sem áður ekki ástæðu til að taka málið aftur til athugunar, hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að það tæki mál A til meðferðar að nýju og hagaði þá úrlausn þess í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Þá mæltist hann til þess að ráðuneytið hefði framangreind sjónarmið í huga framvegis í störfum sínum. Jafnframt ítrekaði hann fyrri tilmæli til ráðuneytisins um að það gerði viðeigandi ráðstafanir til að gæta að málshraða vegna svara til umboðsmanns Alþingis.