Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Stigagjöf við mat. Umsókn. Réttmætisreglan. Andmælareglan.

(Mál nr. 9519/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun Vatnajökulsþjóðgarðs að hætta við ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar en hún var á meðal umsækjenda um starfið. Jafnframt beindist kvörtunin að því að þegar starfið var auglýst á ný hafi umsókn A aldrei komið til mats við ákvörðun um hvern skyldi ráða í starfið. Athugun umboðsmanns beindist að þeirri málsmeðferð sem viðhöfð var í fyrra ráðningarferlinu, einkum að þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar ákvörðun um að hætta við ráðningu og meðferð á umsögnum umsagnaraðila. Þá beindist athugun umboðsmanns að því hvort málsmeðferð þjóðgarðsins í síðara ferlinu sem leiddi til þess að umsókn A kom aldrei til mats hafi verið í samræmi við lög.

A hafði hlotið flest stig umsækjenda við mat ráðningarfyrirtækis sem fólst í stigagjöf fyrir ólíka matsþætti og hafði svæðisráð þjóðgarðsins mælt með ráðningu hennar. Í skýringum þjóðgarðsins kom fram að ekki hafi komið til greina að ráða hana vegna atriða sem komu fram í umsögnum umsagnaraðila og hafi hún ekkert stig fengið fyrir þann þátt. A hafði komið á framfæri andmælum vegna þessara umsagna þar sem hún dró verulega í efa hæfi þeirra til að veita hlutlausa umsögn um hana. Í skýringum þjóðgarðsins kom fram að andmæli A vegna hæfi umsagnaraðilans hefðu ekki haft þýðingu við mat á umsögnunum þar sem andmælin hefðu ekki falið í sér leiðréttingu á villum eða rangfærslum. Umboðsmaður tók fram að sú afstaða hefði ekki verið í samræmi við andmælareglu stjórnsýslulaga. Þjóðgarðinum hefði borið að taka afstöðu til andmælanna og leggja mat á hvort og þá hvaða þýðingu þau kynnu að hafa við mat á umsögnunum. Var það niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð þjóðgarðsins og beiting matsviðmiða, sem í reynd leiddi til þess að andmæli A varðandi hugsanlegt hæfi umsagnaraðila komu ekki til mats, hefði ekki verið í samræmi við lög. Tók hann fram að það eitt að það kæmu fram neikvæð atriði í hluta þeirra umsagna sem aflað væri gæti ekki leyst stjórnvald undan því að taka málefnalega afstöðu til umsagnanna í heild og meta þær heildstætt með tilliti til þess hvernig ætla megi að umsækjandi muni geta sinnt umræddu starfi.

Þá benti umboðsmaður á að Vatnajökulsþjóðgarður hefði verið tvísaga þegar kæmi að ástæðum þess að ákveðið var að hætta við ráðningu og auglýsa starfið á ný í fyrra ráðningarferlinu. Annars vegar hefði A verið veittar þær skýringar að um formgalla á ráðningarferlinu hefði verið að ræða þar sem uppi hefði verið ágreiningur um verklag. Hins vegar kom fram í skýringum þjóðgarðsins til umboðsmanns að ástæðan hefði verið sú að enginn umsækjenda hefði mætt væntingum þjóðgarðsins um þekkingu og reynslu til starfans. Var það álit umboðsmanns að Vatnajökulsþjóðgarður hefði ekki sýnt fram á með gögnum málsins eða skýringum að málefnaleg sjónarmið hefðu búið að baki því að hætta við að ráða úr hópi umsækjenda og auglýsa starfið aftur. 

Umboðsmaður taldi ljóst að umsókn A í síðara ráðningarferlinu hefði ekki verið lögð í réttan lagalegan farveg. Þjóðgarðurinn hafði borið því við að mistök, sem hafi falist í því að slegið var inn rangt netfang hjá ráðgjafa ráðgjafafyrirtækisins þegar framkvæmdastjórinn hugðist áframsenda hana, hefðu valdið því að umsóknin barst aldrei ráðningarfyrirtækinu sem annaðist úrvinnslu umsóknanna og því kom umsóknin aldrei til mats. Taldi umboðsmaður því að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við lög og reglur sem gilda um veitingu opinberra starfa. Umboðsmaður benti í þessu sambandi á að það væri ábyrgð veitingarvaldshafa að tryggja lögmæti ráðningarferlis og að skipulagi málsmeðferðarinnar væri hagað með þeim hætti að tryggt væri að allar umsóknir sem bærust innan umsóknarfrests hlytu lögmælta afgreiðslu.

Þá taldi umboðsmaður að þjóðgarðurinn hafi ekki getað bent á nein tiltekin atriði í tengslum við meðferð á umsókn A í seinna ráðningarferlinu sem bentu til þess að einföld mistök hafi valdið því að umsókn hennar var ekki lögð í réttan farveg eins og allar aðrar umsóknir um starfið. Umboðsmaður tók fram að hann teldi ekki trúverðugt að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins hefði ekki, í ljósi fyrri atvika tengdum umsókn A, áttað sig á að umsókn hennar hefði ekki komið til mats í ferlinu áður en ráðið var í starfið. Lagði umboðsmaður áherslu á að skýringar þjóðgarðsins vegna málsins hefðu hvorki verið trúverðugar eða til þess fallnar að upplýsa málið né vekja traust á málsmeðferðinni. Það var því álit umboðsmanns að Vatnajökulsþjóðgarður hafi ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið för við meðferð umsóknar A í seinna ráðningarferlinu sem urðu til þess að umsókn hennar kom aldrei til mats.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Vatnajökulsþjóðgarðs að leita leiða til að rétta hlut A og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Hann taldi hins vegar að það yrði að vera verkefni dómstóla að fjalla frekar um réttaráhrif þessa annmarka. Hann beindi því jafnframt til þjóðgarðsins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram komu í álitinu. Þá ákvað hann að kynna umhverfis- og auðlindaráðherra sem fer með yfirstjórn mála sem varða þjóðgarðinn álitið.