Lögreglu- og sakamál. Vistun einstaklinga í sjálfsvígshættu í fangageymslum.

(Mál nr. 9939/2018)

Umboðsmaður ákvað að ljúka frumkvæðisathugun sinni á verklagi lögreglu þegar einstaklingar sem eru vistaðir í fangageymslum eru taldir í sjálfsvígshættu. Var það gert í kjölfar svara bæði dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra þar sem m.a. kom fram sú afstaða að vista eigi viðkomandi á viðeigandi heilbrigðisstofnun en ekki í fangageymslum lögreglu. Vegna þeirra tilvika þegar það reynist hins vegar nauðsynlegt um stundarsakir sé ætlunin að samræma verklag allra lögregluembætta landsins.

Athugun umboðsmanns má rekja til þess að allt frá árinu 2013 hafa honum borist kvartanir og ábendingar um atvik þar sem fólk í þessari stöðu hefði verið fært úr fötum og látið dvelja klæðalítið eða klæðalaust í fangaklefa til þess að tryggja að það gæti ekki skaðað sig. Í þessum tilteknu tilvikum hefði ekki verið kallað eftir lækni eða annarri aðstoð.