Heilbrigðismál. Sjúkraskrá. Uppflettingar. Aðgangur aðstandenda. Málshraði. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.

(Mál nr. 9606/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun embættis landlæknis um að staðfesta synjun Landspítala á beiðni hennar um aðgang að upplýsingum um uppflettingar í sjúkraskrá eiginmanns hennar heitins. Niðurstaða landlæknis var byggð á því að upplýsingar um hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá geti ekki talist til sjúkraskrárupplýsinga og falli því ekki undir skilgreiningar á hugtökunum „sjúkraskrárupplýsingar“ og „sjúkraskrá“ í lögum um sjúkraskrár. Ákvæði laganna um aðgang náinna aðstandenda að sjúkraskrá látins einstaklings yrðu ekki túlkuð á þann veg að umræddar upplýsingar féllu þar undir. Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort framangreind afstaða landlæknis og þar með afgreiðsla embættisins á máli A hefði verið í samræmi við lög. Þá beindist athugun hans einnig að farvegi málsins og því hversu langan tíma umrædd beiðni var til umfjöllunar hjá stjórnvöldum.

Umboðsmaður tók fram að fyrrnefndar skilgreiningar sem landlæknir vísaði til á hugtökunum „sjúkraskrárupplýsingum“ og „sjúkraskrá“ yrði með innra samræmi að túlka með hliðsjón af þeim lagaákvæðum og reglum sem gilda um skráningu upplýsinga í tengslum við meðferð sjúklinga og aðgangs að slíkum upplýsingum. Fjallað væri með heildstæðum hætti um aðgang að sjúkraskrá í sérstökum kafla í lögum um sjúkraskrár. Þar væri tekið fram að sjúklingur ætti rétt til aðgangs að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta að öðrum skilyrðum fullnægðum. Þá kæmi þar fram að sjúklingur ætti rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskrár um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá. Umboðsmaður taldi að þegar efni ákvæðisins væri virt í heild og notkun hugtaksins „sjúkraskrá“ í lagakvæðinu, væri það álit hans að þær upplýsingar sem þar væru tilgreindar, þ.e. upplýsingar um þá sem aflað hafa upplýsinga úr sjúkraskrá teldust hluti af þeim upplýsingum sem bæri að skrá og varðveita í þeirri „sjúkraskrá“ sem aðgangsréttur sjúklings tæki til.

Umboðsmaður fjallaði í kjölfarið um rétt náinna aðstandenda látinna einstaklinga til aðgangs að sjúkraskrá hins látna sem fjallað er um í sama kafla laganna. Hann tók fram að með hliðsjón af meginreglunni um innri samræmisskýringu fengi hann ekki séð hvaða rök stæðu til þess að túlka orðið „sjúkraskrá“ með öðrum hætti en í öðrum ákvæðum kaflans. Af því leiddi að leggja yrði til grundvallar að aðgangsréttur aðstandanda næði til sömu upplýsinga eftir andlát sjúklings og aðgangsréttur sjúklingsins sjálfs, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Var það því álit umboðsmanns að upplýsingar um uppflettingar í sjúkraskrám teldust hluti af sjúkraskrá látins einstaklings. Af því leiddi að það var niðurstaða hans að synjun landlæknis á beiðni A um upplýsingar um uppflettingar í sjúkraskrá eiginmanns hennar heitins hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður fjallaði einnig um meðferð stjórnvalda á beiðni A um aðgang að umræddum upplýsingum. Tók hann fram að beiðnin hefði verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í á fjórða ár þegar landlæknir tók endanlega ákvörðun í málinu. Hafði beiðni A á þeim tíma komið til umfjöllunar hjá Landspítala, úrskurðarnefnd um upplýsingamál, landlækni og velferðarráðuneytinu auk þess sem A hafði leitað til umboðsmanns vegna tafa á afgreiðslu málsins. Taldi umboðsmaður, þegar málið væri virt heildstætt, að skort hefði verulega á að þau stjórnvöld sem komu að máli A afgreiddu það í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Tók hann einnig fram að við afgreiðslu slíkra beiðna, ef synjað væri um aðgang, bæri að gæta að því að leiðbeina um kæruleiðir innan stjórnsýslunnar. Tók umboðsmaður sérstaklega fram að hann teldi með hliðsjón af atvikum málsins að tilefni hefði verið til þess að velferðarráðuneytið hefði fyrr haft afskipti af málinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til landlæknis að taka mál A til endurskoðunar kæmi fram beiðni þess efnis og haga þá úrlausn þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Þá mæltist hann til þess að landlæknir og umsjónaraðilar sjúkraskráa hefðu þessi sjónarmið í huga framvegis í störfum sínum og við úrlausn sambærilegra mála og beindi því til landlæknis að gera ráðstafanir til að kynna og leiðbeina umsjónaraðilum sjúkraskráa um umrædd sjónarmið. Þá ákvað hann að kynna Landspítala og úrskurðarnefnd um upplýsinganefnd álitið. Loks beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytis heil­brigðis­mála að gæta betur að yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki sínu í málum af sambærilegum toga.