Skattar og gjöld. Tollkvóti. Tilboð. Afturköllun. Meðalhófsreglan. Birting ákvörðunar.

(Mál nr. 9819/2018)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á því að verða við  beiðni A ehf. um að fella niður tilboð þess í úthlutunarferli á tollkvótum svokallaðra WTO-tollkvóta og höfnun á beiðni um endurupptöku málsins. Byggði A ehf. á því að tilboðsverð þeirra hefði verið misritað með þeim afleiðingum að tilboðið hefði numið rúmlega þrefalt hærri fjárhæð en ætlunin var og þeim var gert að greiða. Kostnaður fyrir félagið hefði af þeim sökum verið hærri en ef fullir tollar hefðu verið greiddir af vörunni. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist einkum á því að tilboð A ehf. hefði verið bindandi og úthlutun tollkvóta til þess hefði verið í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglna og auglýsingu ráðuneytisins. Þá næðu engar reglur til tilviksins þannig að heimilt væri að verða við beiðni félagsins um að fella niður tilboðið. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort ráðuneytið hefði leyst úr beiðni A ehf. á réttum lagagrundvelli, einkum með hliðsjón af reglum um afturköllun og meðalhóf. 

Í kvörtun A ehf. hafði félagið jafnframt haldið því fram að það hafi komið að leiðréttingu á tilboði sínu áður en ákvörðun hefði verið birt félaginu þar sem það sendi ráðuneytinu bréf daginn eftir að auglýsing um úthlutun var birt en áður tilkynning þess efnis barst með bréfi. Umboðsmaður benti á að eins og ákvæði reglugerðar um úthlutun tollkvóta væri orðað bæri það með sér að úthlutun færi fram með auglýsingu ráðuneytisins og þar með birt með þeim hætti. Úthlutunin hefði því verið bindandi fyrir alla aðila málsins sem og ráðuneytið við birtingu auglýsingar.

Að því sögðu tók umboðsmaður fram að úthlutun tollkvóta væri stjórnvaldsákvörðun um álagningu skatts. Þegar ráðuneytinu hefði borist erindi A ehf. hefði því borið að leysa úr málinu á grundvelli þeirra heimilda sem það hefði til að breyta ákvörðun eða fella hana úr gildi, s.s. á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga um endurupptöku máls eða afturköllun.  Ekki yrði hins vegar ráðið af gögnum málsins og skýringum ráðuneytisins að það hefði fjallað um heimild til afturköllunar. Þá hefði ráðuneytið hvorki sýnt fram á að það hefði lagt mat á hvort afturköllun úthlutunar hefði verið til tjóns fyrir aðra aðila né að ekki hefði verið hægt að ná markmiðum laganna með því að fara aðra leið í málinu en gert var. Það var því álit umboðsmanns, að virtum þeim hagsmunum sem undir voru í málinu og markmiðum reglna um úthlutun tollkvóta, að ráðuneytið hefði ekki leyst með fullnægjandi hætti úr erindi A ehf. Erindi félagsins hafi gefið ráðuneytinu tilefni til að teknar yrðu til skoðunar heimildir ráðuneytisins til að afturkalla ákvörðun þess á grundvelli VI. kafla stjórnsýslulaga, að teknu tilliti til meðalhófs. Svar ráðuneytisins við beiðni A ehf. um niðurfellingu tilboðs þess í tollkvóta hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að taka mál A ehf. aftur til meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og að leyst yrði úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í áliti hans. Þá mæltist hann til þess að ráðuneytið tæki framvegis og við úrlausn sambærilegra mála mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.