Almannatryggingar. Viðmið um launaþróun við ákvörðun fjárhæðar bóta.

(Mál nr. 9818/2018)

Öryrkjabandalag Íslands lagði fram kvörtun sem laut að ákvörðunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvernig launaþróun er metin við gerð tillögu til fjárlaga um breytingar á fjárhæðum bóta. Gerði bandalagið m.a. athugasemdir við að almennt sé svokallað launaskrið dregið frá launavísitölu við útreikning og forsendur hlutfallshækkunar bóta almannatrygginga.

Samkvæmt lagaákvæðinu sem um ræðir skulu bætur almannatrygginga breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Af forsögu ákvæðisins má ráða að þegar talað er um að hækkun bóta skuli taka mið af launaþróun hafi ekki verið ætlun löggjafans að festa hækkanir við tiltekna vísitölu, líkt og launavísitölu. Því hafi ráðherra tiltekið svigrúm til að meta og taka mið af ólíkum aðstæðum þegar reyni á launaþróun. Ekki verði annað séð en tillögur um hækkun bóta í fjárlagafrumvörpum 2018 og 2019 hafi í báðum tilvikum gert ráð fyrir meiri hækkun en spáð hafi verið samkvæmt vísitölu neysluverðs og því ekki verið í bága við lagaákvæðið.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu taldi umboðsmaður ástæðu til að vekja athygli viðeigandi stjórnvalda á þeim álitaefnum sem Öryrkjabandalagið benti á í kvörtun sinni og tekin voru til athugunar. Benti hann þeim á að taka afstöðu til þess hvort búa megi því fjárlagaverkefni, sem leiði af umræddu lagaákvæði um launaþróun, skýrari lagagrundvöll.