Almannatryggingar. Barnalífeyrir. Afturvirkar greiðslur. Fyrningarreglur. Leiðbeiningarskylda. Meinbugir á lögum. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 9790/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma greiðslna barnalífeyris til hennar. Niðurstaða nefndarinnar byggðist einkum á því að ekki væri lagaheimild til að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta bærust Tryggingastofnun. Laut athugun umboðsmanns einkum því hvort Tryggingastofnun hefði borið að leiðbeina A um rétt til barnalífeyris með hliðsjón af upplýsingum sem voru til staðar í máli A en einnig að því hvaða úrræði væru tiltæk fyrir bótaþega almannatrygginga innan stjórnsýslunnar ef Tryggingastofnun hefði ekki gætt að lagaskyldum sem hvíla á stofnuninni.

Í málinu hafði A byggt á því að tveggja ára tímamark sem mælt er fyrir í lögum um almannatryggingar ætti ekki við í máli hennar þar sem Tryggingastofnun hefði ekki leiðbeint henni um rétt til barnalífeyris. Benti A m.a. á að hún hafi verið metin til 75% varanlegrar örorku árið 2004 þegar hún fékk umönnunargreiðslur og meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun eftir að barn hennar fæddist árið 2007. Tryggingastofnun hefði því haft upplýsingar um að hún ætti barn a.m.k. frá árinu 2008 þegar hún sótti um umönnunargreiðslur og meðlag.

Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að staðfesta rétt A til bóta tvö ár aftur í tímann frá dagsetningu umsóknarinnar í samræmi við fyrningarreglu laga um almannatryggingar. Hins vegar taldi umboðsmaður það vera sjálfstætt álitaefni hvort og þá hvaða leiðir einstaklingar í sömu stöðu og A gætu farið til að rétta hlut sinn ef þeir teldu að skort hefði á leiðbeiningar og upplýsingar af hálfu Tryggingastofnunar sem hefðu leitt til þess að þeir sóttu ekki um bætur sem þeir ella hefðu átt rétt á fyrir umrætt tveggja ára tímamark. Tók umboðsmaður m.a. fram að í íslenskum rétti ættu einstaklingar í þessari stöðu almennt, að uppfylltum skilyrðum réttarfarslaga, kost á að fara með slíkan ágreining fyrir dómstóla. Dómstólaleiðin gæti þó verið hinum almenna borgara þung í skauti, m.a. vegna kostnaðar. Taldi umboðsmaður tilefni til þess að beina þeim tilmælum til félags- og barnamálaráðherra, sem fer með málefni almannatrygginga, að gildandi lög yrðu endurskoðuð þannig að þeir sem teldu að skortur á leiðbeiningum af hálfu Tryggingastofnunar hefði leitt til þess að þeir yrðu af bótagreiðslum lengra aftur í tíman en tvö ár gætu fengið skorið úr slíkum ágreiningi hjá stjórnvöldum og leiðréttingu.

Þá taldi umboðsmaður að umfjöllun úrskurðarnefndar velferðarmála um að tilefni hefði verið til leiðbeininga af hálfu Tryggingastofnunar gagnvart A, og um að engin gögn lægju fyrir um hvort slíkar leiðbeiningar hefðu verið veittar, hefði átt að gefa Tryggingastofnun tilefni til þess að taka þennan þátt í máli A til athugunar að gengnum úrskurði nefndarinnar. Var það niðurstaða umboðsmanns að sú skylda hefði hvílt á Tryggingastofnun, eigi síðar en frá árinu 2008, að leiðbeina A að eigin frumkvæði um rétt A og nauðsyn þess að sækja um barnalífeyri. Það hefði leitt til þess að hún fékk ekki greiddan barnalífeyri nema tvö ár aftur í tímann frá því umsókn var lögð fram. Í samræmi við þetta voru það tilmæli umboðsmanns til Tryggingastofnunar að stofnunin tæki þennan þátt í máli A til athugunar, og þá eftir atvikum að höfðu samráði við ráðuneytið sem lýst hefði sömu afstöðu og úrskurðarnefndin, og legði það í nauðsynlegan farveg til að rétta hlut A til samræmis við þá afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála og ráðuneytisins að tilefni hefði verið til að leiðbeina henni af hálfu Tryggingastofnunar.

Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins að regluleg yfirferð úrskurða frá úrskurðarnefnd velferðarmála yrði hluti af því verklagi sem ráðuneytið viðhefði vegna yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda þess.