Opinberir starfsmenn. Framhaldsskólar. Forstöðumaður bókasafns. Almenn hæfisskilyrði. Auglýsing á lausu starfi. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 9971/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir að framhaldsskólinn X hefði ráðið B í auglýst starf umsjónarmanns bókasafns við skólann. A hafði einn umsækjanda lokið háskólaprófi í bókasafns- og upplýsingafræði og taldi að með ráðningu B hefði verið gengið fram hjá sér með ólögmætum hætti. Þar vísaði A til fyrri starfa við bókasöfn og ákvæðis í bókasafnalögum þess efnis að forstöðumaður bókasafns skuli, ef þess er kostur, hafa próf í bókasafns- og upplýsingafræði.  Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort mat á umsækjendum um starfið hefði verið í samræmi við menntunarskilyrði sem bundin væru í lög.

Í auglýsingu um starfið var  m.a. áskilin „háskólamenntun og reynsla á sviði upplýsingafræði“ en í svörum skólans til umboðsmanns var m.a. bent á ekki hefði verið auglýst eftir forstöðumanni bókasafnsins heldur umsjónarmanni þess. Því hefði skólinn ekki talið þörf á að hafa hliðsjón af lagaákvæðinu um að forstöðumaður bókasafns skuli, ef þess er kostur, hafa próf í bókasafns- og upplýsingafræði. Auk þess hefði skólinn verið í samstarfi við bókasafn sveitarfélagsins.

Umboðsmaður rakti annars vegar starfssvið umsjónarmanns, eins og því var lýst í auglýsingu skólans, og hins vegar hlutverk yfirmanns skólasafns samkvæmt ákvæðum framhaldsskólalaga og reglugerðar um starfslið framhaldsskóla. Taldi umboðsmaður að af samanburðinum yrði ekki annað ráðið en að hið auglýsta starf fæli í sér meginþætti hlutverks yfirmanns skólasafns. Benti hann á að þótt stjórnvöld hefðu nokkurt svigrúm til þess að skipuleggja störf og velja þeim lýsandi heiti gætu þau ekki með vísan til starfsheitisins sneitt hjá þeim lögbundnu skilyrðum sem kynnu að gilda um viðkomandi starf. Enn fremur gerði hann grein fyrir að áðurnefnt ákvæði bókasafnalaga um menntun forstöðumanns tæki einnig til yfirmanns skólasafns og að í reglugerð um starfslið framhaldsskóla, sem sett er á grundvelli framhaldsskólalaga, væri fyrirvaralaust ákvæði um að yfirmaður skólasafns skuli vera bókasafnsfræðingur.

Með vísan til framangreinds taldi umboðsmaður ekki hægt að leggja annað til grundvallar en að umrætt starf „umsjónarmanns bókasafns“ hefði falið í sér þau verkefni og störf sem forstöðumaður bókasafns, í skilningi bókasafnalaga, hefði með höndum. Þar með hefði skólinn verið bundinn af umræddu ákvæði bókasafnalaga um menntun forstöðumanns og ákvæði reglugerðar um menntun yfirmanns bókasafnsins. Á skólanum hefði því hvílt sú skylda að taka þegar við auglýsingu um starfið mið af ákvæðum laga og reglugerðar um menntunarkröfur og það hefði einnig átt við þegar kom að heildarmati og samanburði á umsækjendum. Þá væri ekki séð að forstaða eða fyrirsvar skólasafnsins hefði verið falið öðru bókasafni. Að sama skapi gæti það ekki breytt framangreindum skilyrðum laga að forstöðumanni eða yfirmanni bókasafns skólans væri veittur kostur á að sinna öðrum verkefnum við skólann, eins og í þessu tilviki, þótt sameining starfa kynni að vera heimil.

Var það niðurstaða umboðsmanns að framhaldsskólinn X hefði, með því að líta með öllu fram hjá þýðingu hæfisskilyrðis sem kæmi fram í lögum og reglugerð varðandi menntun við ráðningu í starf „umsjónarmann bókasafns“ ekki byggt úrlausn málsins á fullnægjandi lagagrundvelli. Ætti það bæði við um hvernig staðið var að efni auglýsingar um starfið og mat og samanburð umsækjenda. Í samræmi við framangreint og þær upplýsingar sem lægju fyrir í málinu  yrði ekki séð að B hefði, þegar ráðningin fór fram, uppfyllt menntunarskilyrði til starfsins sem kveðið væri á um í lögum og reglugerð settri samkvæmt heimild í lögum.

Umboðsmaður tók fram að það yrði að vera verkefni skólans, og þá eftir atvikum með aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, að greiða úr því hvaða afleiðingar skortur á að þetta almenna hæfisskilyrði var uppfyllt hefði á gildi ráðningarinnar og þar með hvernig bætt yrði úr þeim annmarka sem var á ákvörðunartöku um ráðninguna. Þótt hann hefði ekki tekið að öðru leyti afstöðu til samanburðar eða mats á hæfni umsækjenda til að gegna starfinu væri ljóst að A hefði verið eini umsækjandinn sem hefði lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði á þeim tíma sem ráðningin fór fram. Voru það tilmæli hans til framhaldsskólans X að leita leiða til að rétta hlut A og að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif framangreinds annmarka á ráðningunni og þá gagnvart A, ef A kysi að fara með málið þá leið.