Sveitarfélög. Úthlutun lóða til trú- og lífsskoðunarfélaga. Sjálfsstjórn sveitarfélaga. Stjórnsýslueftirlit ráðuneytis. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 10128/2019)

A sem er skráð lífsskoðunarfélag leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem kröfu félagsins um að Reykjavíkurborg yrði gert að verða við erindi þess um lóðarúthlutun án endurgjalds var synjað. A taldi að borginni bæri að úthluta lóðum til skráðra lífsskoðunarfélaga á grundvelli sjónarmiða um jafnræði í ljósi þess að borgin hefði áður úthlutað lóðum til trúfélaga annarra en þjóðkirkjunnar á grundvelli lagaákvæðis sem skyldar sveitarfélög til að leggja til lóðir undir kirkjur endurgjaldslaust. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist einkum á því að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm við ráðstöfun fjárhagslegra verðmæta. Var í því sambandi vísað til sjálfsstjórnar sveitarfélaga og að úthlutun lóða teljist ekki vera eitt af skyldubundnum verkefnum þeirra. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort málið hefði verið rannsakað með fullnægjandi hætti af hálfu ráðuneytisins og þar með hvort fullnægjandi grundvöllur hefði verið lagður að úrlausn málsins.

Umboðsmaður rakti hvers eðlis eftirlitshlutverk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins samkvæmt sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum væri með hliðsjón af sjálfstjórn sveitarfélaga og skyldubundum verkefnum þeirra. Sveitarfélög væru hluti af stjórnsýslunni hér á landi og bæri að fylgja almennum reglum, bæði á lögfestum og ólögfestum grundvelli, um starfshætti og ákvarðanatöku í stjórnsýslunni. Af þeim sökum veitti sjálfstjórn sveitarfélaga þeim ekki heimild til að haga ákvarðanatöku við úthlutun lóða eins og þeim þætti best henta. Þá taldi umboðsmaður að ekki yrði annað séð en að málið varðaði framkvæmd á lögmæltu verkefni borgarinnar og við slíkar ákvarðanir þurfi sveitarfélag að gæta að þeim efnisreglum sem leiði af viðkomandi lögum. Þar gæti fyrri framkvæmd við úthlutanir haft þýðingu. Í ljósi þess að ákvarðanir um úthlutun lóða væru stjórnvaldsákvarðanir sem væru kæranlegar til ráðuneytisins á grundvelli sveitarstjórnarlaga hefði ráðuneytinu því borið að kanna hvort ákvarðanir sveitarfélagsins væru að formi og efni til í samræmi við lög. Umboðsmaður ítrekaði að sjálfstjórn sveitarfélaga hrófli ekki við þeim skyldum sem hvíla á ráðuneytinu hvað eftirlit þess varðar. Í úrskurði ráðuneytisins hafði aftur á móti hvergi verið vikið að því hvort til staðar hefði verið stjórnsýsluframkvæmd um úthlutun lóða og þá hvort framkvæmdinni hefði verið breytt með formlegri ákvarðanatöku.  

Það var niðurstaða umboðsmanns að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefði ekki fullnægt þeirri rannsóknarskyldu sem á því hvíldi og því hafi niðurstaða í máli A ekki verið í samræmi við lög. Ekki yrði séð að ráðuneytið hefði rannsakað hvort til staðar hefði verið stjórnsýsluframkvæmd hjá borginni um lóðaúthlutanir til trú- og lífsskoðunarfélaga. Þá hefði ráðuneytið heldur ekki rannsakað sérstaklega hvort þar til bær aðili innan borgarinnar hefði synjað umsókn A. Með hliðsjón af þeirri framkvæmd borgarinnar í málum af þessum toga og að í synjun slíkrar umsóknar fellst fullnaðarafgreiðsla máls taldi umboðsmaður að tilefni hefði verið til að rannsaka umrætt atriði. Það var því jafnframt niðurstaða umboðsmanns að ráðuneytið hefði ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni að þessu leyti. Þá taldi umboðsmaður enn fremur tilefni til að ítreka fyrri ábendingar sínar um þörf endurbóta á eftirliti ráðherra og ráðuneytis sveitarstjórnarmála með sveitarfélögum.