Skaðabætur. Skilyrði bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 69/1995. Bótanefnd. Lögskýring. Skyldubundið mat. Rannsóknarreglan. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda.

(Mál nr. 10037/2019 og 10038/2019)

A og B leituðu til umboðsmanns og kvörtuðu yfir ákvörðunum bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þar sem umsóknum þeirra um bætur var hafnað.  Í niðurstöðu nefndarinnar var vísað til þess að umsókn um bætur skuli hafa borist nefndinni innan tveggja ára frá því brot var framið í samræmi við í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Þrátt fyrir að í 3. mgr. sama ákvæðis komi fram að víkja megi frá þessu skilyrði, þegar veigamikil rök mæli með, hafi nefndin fylgt því viðmiði að umsókn skuli berast innan tveggja ára frá því kæra var lögð fram. Athugun umboðsmanns laut að því hvort ákvarðanir nefndarinnar og þær forsendur sem þar var byggt á við beitingu 6. gr. laga nr. 69/1995 hafi verið í samræmi við lög. Jafnframt fjallaði umboðsmaður um afstöðu bótanefndar til leiðbeiningarskyldu lögreglu á grundvelli sömu laga og hlutverks réttargæslumanna. 

Umboðsmaður rakti aðdraganda þess að ákvæði 3. mgr. var bætt við 6. gr. laga nr. 69/1995 þar sem veitt var heimild til að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. sama ákvæðis. Benti hann á að af 3. mgr. 6. gr. leiddi að bótanefnd yrði að leggja einstaklingsbundið og heildstætt mat á hvort veigamikil rök mæltu með því að víkja frá þeim skilyrðum. Lagði hann áherslu á að ekki væri mælt fyrir um neinn tímafrest í 3. mgr. 6. gr. og engar vísbendingar um það í lögskýringargögnum að ætlunin hafi verið að setja einhver tímamörk. Þvert á móti hafi tilgangur ákvæðisins verið að víkja frá tímamörkum laganna og tryggja að tjónþolar, einkum þeir sem voru börn þegar brot var framið, fengju bætur úr ríkissjóði þrátt fyrir að brotin hefðu ekki verið kærð og umsókn til bótanefndar hefði ekki verið send fyrr en löngu síðar. Óumdeilt væri að aðstæður A og B féllu að þeim aðstæðum sem 3. mgr. 6. gr. átti að koma til móts við. Var það álit umboðsmanns að bótanefndin hefði, með því að miða við að umsókn þyrfti að berast nefndinni innan tveggja ára frá því brot var kært, þrengt með of fortakslausum hætti að því mati sem orðalag 3. mgr. 6. gr. laganna fæli í sér með hliðsjón af meginreglunni um skyldubundið mat. Ekki yrði séð að fullnægjandi og heildstætt mat hefði verið lagt á umsóknir A og B og ákvarðanir bótanefndar hefðu því ekki verið í samræmi við lög.

Við meðferð málsins hafði bótanefnd byggt á því að þar sem A og B hefðu notið réttargæslu við meðferð málsins væri hægt að gera ríkari kröfur til málsmeðferðar en áður en þær kærðu brotin og þar með að umsóknir hefðu verið sendar nefndinni fyrr. Jafnframt að haldlaust væri að bera því við að mistök lögreglu við að leiðbeina þeim hefði orðið til þess að þær væru óvísar um rétt sinn til greiðslu bóta úr ríkissjóði. Umboðsmaður tók af þessu tilefni fram að skylda hafi hvílt á lögreglu til að leiðbeina A og B um að þær gætu átt rétt til greiðslu bóta úr ríkissjóði en ekki yrði séð að það hefði verið gert. Leiðbeiningarskyldan félli ekki á brott þótt viðkomandi nyti aðstoðar réttargæslumanns. Þá yrði ekki séð að nefndin hefði haft fullnægjandi upplýsingar til að leggja mat á hvaða áhrif vanræksla lögreglu hefði átt að hafa á niðurstöðu nefndarinnar. Benti hann í því sambandi á að rangar eða ófullnægjandi leiðbeiningar væru meðal þeirra atriða sem gætu leitt til þess að afsakanlegt teldist að stjórnsýslukæra bærist ekki innan kærufrests. Var það niðurstaða hans að málið hafi ekki verið nægilega upplýst að þessu leyti í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Voru það tilmæli umboðsmanns til nefndarinnar að hún tæki mál A og B til meðferðar á nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá þeim, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og hefði þau jafnframt framvegis í huga. Þá vakti umboðsmaður athygli ríkislögreglustjóra á athugasemdum sem gerðar voru við leiðbeiningarskyldu lögreglu, með hliðsjón af samræmingarhlutverki ríkislögreglustjóra í starfsemi lögreglu.