Landbúnaður. Lögbýli. Búfé. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 10025/2019)

A ehf. kvartaði yfir því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði synjað umsókn félagsins um stofnun nýs lögbýlis með vísan til neikvæðrar umsagnar sveitarstjórnar. Ákvörðun ráðuneytisins var síðar rökstudd með vísan til þess að starfsemi félagsins gæti ekki talist til landbúnaðar og að hún væri til þess fallin að raska búrekstraraðstöðu nálægra jarða. Athugun umboðsmanns laut að því hvort ákvörðun ráðuneytisins hefði verið byggð á fullnægjandi lagagrundvelli.

Í tilefni af atvikum málsins fjallaði umboðsmaður um hlutverk ráðuneytisins og umsögn sveitarstjórnar við afgreiðslu á umsókn um stofnun nýs lögbýlis. Benti hann á að vald til þess að ákveða hvort fallast ætti á umsókn væri hjá ráðherra. Hann hefði því það hlutverk að meta hvort skilyrði væru til að veita leyfi til stofnunar nýs lögbýlis. Umsögn sveitarstjórnar væri ekki bindandi fyrir ráðherra, enda þótt hún hefði leiðbeinandi gildi. Megintilgangur að baki umsögninni væri að gefa sveitarstjórn færi á að koma að áliti sínu við meðferð málsins, sem hún teldi hafa þýðingu út frá hagsmunum sveitarfélagsins, og þá einkum með tilliti til þeirra skilyrða sem væru sett fyrir stofnun nýs lögbýlis. Umsögnin væri einnig liður í að upplýsa málið nægjanlega til að ráðherra væri unnt að ákveða hvort skilyrði væru uppfyllt til að veita leyfið. Eftir sem áður væri það á ábyrgð ráðherra að meðferð máls væri í samræmi við stjórnsýslulög og að ákvörðun þess byggði á fullnægjandi grundvelli.

Umboðsmaður vék því næst að þeirri afstöðu ráðuneytisins að starfsemi sem félagið áformaði gæti ekki talist landbúnaður. Í því samhengi fjallaði hann um hugtökin „landbúnað“ og „búfé“ samkvæmt lögum og lögskýringargögnum. Benti hann á að þegar kæmi að mati á stofnun nýs lögbýlis yrði að leggja heildstætt mat á fyrirhugaða starfsemi til að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort hún gæti talist til landbúnaðar og þá að teknu tilliti til fjölþætts hlutverks landbúnaðar og atvinnuhátta á hverjum tíma. Í ljósi lagasjónarmiða um matskennt eðli landbúnaðar- og búfjárhugtakanna taldi umboðsmaður að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að málið hefði verið nægjanlega upplýst til þess að unnt hefði verið að meta hvort starfsemi félagsins teldist til landbúnaðar. Yrði því ekki séð að fullnægjandi rannsókn eða mat á starfseminni hefði farið fram. Taldi umboðsmaður því að ákvörðun ráðuneytisins hefði ekki verið reist á fullnægjandi grundvelli.

Jafnframt fjallaði umboðsmaður um þá afstöðu ráðuneytisins að starfsemi félagsins væri til þess fallin að raska búrekstraraðstöðu nálægra jarða. Í ákvörðuninni hefði verið byggt á áhyggjum annarra landeigenda, sem vísað hefði verið til í umsögn sveitarstjórnar. Umboðsmaður benti á að ekkert lægi fyrir um að ráðuneytið hefði rannsakað atvik málsins, eftir atvikum með því að óska eftir frekari upplýsingum frá sveitarstjórn, til þess að það gæti metið hvort starfsemin raskaði búrekstraraðstöðu nálægra jarða í reynd. Þar sem byggt hefði verið á upplýsingum um áhyggjur annarra landeigenda á svæðinu, sem ekki lægi fyrir hverjir væru, án þess að þær hefðu verið rannsakaðar nánar taldi umboðsmaður að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að taka mál A ehf. til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og að það leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.