Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að sjúkraskrá. Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11054/2021)

Kvartað var yfir túlkun Landspítala á lögum um sjúkraskrár. Nánar tiltekið þeirri afstöðu að svokölluð fótspor, sem meðal annars sýna hvort sjúkraskrá hafi verið breytt, teldust ekki hluti af sjúkraskrá sjúklings og féllu því ekki undir 14. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá.

Landlæknir, sem hefur eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt, féllst á athugasemdir viðkomandi varðandi túlkun Landspítalans á lögunum. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 25. apríl sl. sem laut að túlkun Landspítalans á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, nánar tiltekið þeirri afstöðu að svokölluð „fótspor“, sem m.a. sýna hvort gerðar hafi verið breytingar á sjúkraskrá, teljist ekki hluti af sjúkraskrá sjúklings og falli þar af leiðandi ekki undir 14. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá.

Af kvörtuninni, og þeim gögnum sem henni fylgdu, verður ráðið að þér hafið leitað til embættis landlæknis vegna málsins sem hafi af því tilefni óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum með bréfi, dags. 27. febrúar 2020. Bárust embættinu svör Landsspítalans með bréfi, dags. 12. mars s.á. Þá fylgdi kvörtun yðar afrit af tölvubréfi frá 8. apríl sl. þar sem embætti landlæknis tilkynnti að málinu væri lokið af hálfu þess og yður hafi verið send öll gögn málsins.

Í tilefni af ofangreindu var embætti landlæknis ritað bréf 21. maí sl. þar sem þess var óskað að embættið upplýsti á hvaða grundvelli mál yðar var tekið til meðferðar og hvort málinu hafi verið lokið með formlegum hætti. Þá var þess óskað að upplýst yrði um hvort embættið hefði tekið afstöðu til þess hvort Landspítala bæri að veita yður aðgang að hinum umræddu „fótsporum“ og, ef svo væri ekki, að skýringar yrðu veittar að því leyti og þá hvernig það væri í samræmi við 15. gr. a. laga nr. 55/2009, þar sem mælt er fyrir um rétt til að bera synjun um aðgang að sjúkraskrá undir embætti landlæknis.

Svör embættisins bárust mér með bréfi dags. 16. júní sl. Þau fylgja hjálögð í ljósriti. Eins og nánar er rakið þar hefur embætti landlæknis nú formlega lokið athugun sinni á málinu með bréfi til yðar, dags. sama dag. Í bréfinu er þeirri afstöðu embættisins lýst að „upplýsingar sem verða til í samræmi við 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. [laga nr. 55/2009] séu hluti af sjúkraskrá sjúklings sem skylt sé að afhenda sé þess óskað með vísan til 14. gr. laganna, að öðrum skilyrðum uppfylltum“. Hefur embættið upplýst Landspítala um þessa afstöðu og niðurstöðu í máli yðar. Var yður leiðbeint um að leita að nýju til Landspítalans ef þér óskuðuð eftir frekari upplýsingum úr sjúkraskrá yðar.

Þar sem kvörtun yðar laut að túlkun Landspítala á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2009 og að nú liggur fyrir að embætti landlæknis, sem hefur eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt, sbr. 2. mgr. 22. gr. þeirra, hefur fallist á athugasemdir yðar þar að lútandi, tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Fari svo að þér leitið að nýju til Landspítalans og óskið eftir því að yður verði veittar frekari upplýsingar úr sjúkraskrá yðar og teljið yður enn rangindum beittan, eftir atvikum að lokinni málsmeðferð embættis landlæknis, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.