Dýrahald. Sveitarfélög.

(Mál nr. 11186/2021)

Kvartað var yfir lausagöngu katta í Fjallabyggð. 

Ekki varð séð að kvörtunin lyti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem beindist að viðkomandi umfram aðra heldur fæli í sér ósk um almenna lögfræðilega álitsgerð. Ekki voru því skilyrði til að fjalla um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 21. júní sl., sem lýtur að lausagöngu katta í Fallabyggð, nánar tiltekið að hún sé ekki bönnuð innan sveitarfélagsins.

Í símtali við starfsmann skrifstofu umboðsmanns 23. júní sl. kom fram að þér hefðuð lagt tillögu fyrir skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins um að lausaganga katta yrði bönnuð á varptíma fugla. Sú tillaga hefði verið samþykkt af hálfu nefndarinnar en bæjarstjórn ákveðið að banna ekki lausagöngu katta í sumar heldur ráðleggja fólki að kvarta ef það verður fyrir ónæði og taka afstöðu til þess í haust hvort tilefni sé til að breyta reglum um kattahald í sveitarfélaginu.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Af framangreindu leiðir að kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum aðila sem heyra undir eftirlit umboðsmanns er beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Ég fæ ekki séð af kvörtun yðar að það lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist að yður sjálfum umfram aðra í framangreindum skilningi, heldur felur hún í sér ósk um almenna lögfræðilega álitsgerð um réttarstöðu yðar vegna ónæðis af völdum katta auk þess sem það lýtur að almennri reglusetningu innan Fjallabyggðar. Eru því ekki skilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til efnislegrar athugunar.

Ég bendi yður þó á að samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, geta sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 59. gr. laganna.

Á þessum grundvelli hefur Fjallabyggð sett samþykkt um kattahald nr. 636/2012 frá 2. júlí 2012, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 17. sama mánaðar. Í henni segir að heilbrigðisnefnd geri ráðstafanir til að fækka flækingsköttum og sé heimilt að fanga ketti í búr og færa í sérstaka kattageymslu, m.a. ef ítrekað er kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði eða ef köttur er innandyra hjá nágranna í leyfisleysi, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. samþykktarinnar. Í samræmi við það getið freistað þess að beina kvörtun til nefndarinnar. Fari svo að þér leitið til nefndarinnar, og þér teljið hana ekki bregðast við í samræmi við umrædda samþykkt og yður enn beittan rangsleitni, er yður fært að leita til mín á ný innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, eftir atvikum eftir að hafa nýtt yður önnur tiltæki úrræði innan stjórnsýslunnar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.