Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11487/2022)

Kvartað var yfir töfum á málsmeðferð hjá Skattinum.

Skatturinn kvað málið enn til meðferðar, tafirnar væru miður en stefnt væri að því að ljúka því í byrjun mars. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 13. janúar sl., fyrir hönd A, sem lýtur að töfum á meðferð Skattsins á málum A.

Í tilefni af kvörtuninni var Skattinum ritað bréf 7. febrúar sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort stjórnvaldið hefði mál A til meðferðar og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra.

Svarbréf barst frá Skattinum 22. febrúar sl. þar sem m.a. var greint frá því að stofnunin hefði virðisaukaskattskil A vegna áranna 2017 og 2018 til skoðunar og málunum hefði ekki verið lokið. Stofnunin hefði ekki sérstakar skýringar á þeim töfum sem hefðu orðið á afgreiðslu málanna, en tók fram að þær væru miður og að stefnt væri að því að A yrði tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti vegna áranna 2017 og 2018 eigi síðar en 4. mars nk. Áréttað var að því yrði fylgt eftir að ekki yrðu frekari tafir á lúkningu málsins.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málanna getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.