Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11496/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ákvörðun hennar að synja beiðni um endurupptöku máls.

Út frá gögnum málsins og úrskurði nefndarinnar taldi umboðsmaður hvorki efni til að gera athugasemdir við úrskurðinn né þá ákvörðun að ekki hefðu verið skilyrði til að endurupptaka málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 22. desember sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 29. október sl. í máli nr. 93/2021 og ákvörðun nefndarinnar 10. desember sl. um að synja beiðni yðar um endurupptöku málsins. Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust gögn málsins frá nefndinni 7. febrúar sl.

Með úrskurðinum vísaði nefndin frá kröfu yðar um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 23. september 2015 um samþykkt tilgreinds byggingarleyfis. Sú niðurstaða byggðist á því að kærufrestur samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, hefði verið liðinn þegar kæra yðar vegna umræddrar ákvörðunar barst nefndinni og ekki væru uppfyllt skilyrði til að taka hana til meðferðar að liðnum kærufresti. Jafnframt hafnaði nefndin kröfu yðar um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafa verið á fyrrgreindu húsi. Um forsendur þeirrar afstöðu vísaði nefndin til þess að engar ástæður væru fyrir hendi sem gætu leitt til þess að þeirri ákvörðun, sem byggðist á 55. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, yrði hnekkt.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur. Efir að hafa kynnt mér gögn málsins sem og þær forsendur sem koma fram í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála tel ég hvorki efni til þess að gera athugasemdir við úrskurðinn né þá ákvörðun nefndarinnar 10. desember sl. að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði til að endurupptaka málið.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.