Atvinnuleysistryggingar. Niðurfelling bótaréttar. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 11360/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt A til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði. Var sú ákvörðun byggð á því að með því að hafna því að mæta í svokallaðar „prófanir“ hjá X ehf., í kjölfar atvinnuviðtals, hefði hann hafnað starfi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort úrskurðarnefndin hefði gætt að rannsóknarskyldu sinni í máli A. Þá taldi umboðsmaður tilefni til að víkja að framsetningu málatilbúnaðar Vinnumálastofnunar fyrir úrskurðarnefndinni.

Í kæru A til úrskurðarnefndarinnar vísaði hann til þess að hann hefði hafnað því að mæta í „prófanir“ hjá X ehf. þar sem ekki hefði staðið til að greiða honum laun fyrir þá vinnu. Umboðsmaður tók fram að þótt A hefði ekki orðið við beiðni úrskurðarnefndarinnar um að leggja fram gögn, sem staðfestu þá staðhæfingu hans, yrði að hafa í huga að í stjórnsýslukæru hans hefði sérstaklega verið vísað til þess að samskipti hans og X ehf. hefðu farið fram í gegnum síma. Í ljósi þess að A hefði ekki lagt fram frekari gögn sem studdu frásögn hans hefði nefndinni borið að leggja mat á hvort hægt væri að afla slíkra upplýsinga og þar með upplýsa málið að þessu leyti eins og kostur væri áður en ákvörðun væri tekin. Stjórnvöld gætu ekki skotið sér hjá að rannsaka mál með viðhlítandi hætti en vísa þess í stað til sönnunarreglna. Ekki yrði séð að þau gögn sem hefðu legið fyrir hjá nefndinni hefðu verið fullnægjandi til að varpa ljósi á hvort A teldist í reynd hafa hafnað starfi eða atvinnuviðtali í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, ekki síst í ljósi þess að um var að ræða stjórnsýsluviðurlög og íþyngjandi ákvörðun fyrir hagsmuni A. Þar sem úrskurðarnefndin hefði ekki gert reka að því að afla frekari upplýsinga áður en ákvörðun var tekin var það niðurstaða umboðsmanns að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður taldi jafnframt tilefni til að víkja að greinargerð Vinnumálastofnunar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar var m.a. vísað til þess að málsástæða A, um að ekki hefði staðið til að greiða honum laun fyrir að mæta í „prófanir“, hefði fyrst komið fram við meðferð kærumálsins og að yfirlýsingar hans væru ekki studdar viðhlítandi gögnum eða skýringum á ástæðum þess. Hefði hann því, að mati stofnunarinnar, ekki veitt skýringar fyrir höfnun á starfi sem gætu talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Umboðsmaður fjallaði almennt um rannsókn stjórnvalda og mikilvægi þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar lægju fyrir til að hægt væri að taka efnislega rétta ákvörðun í máli. Aðilar stjórnsýslumáls færu því að jafnaði ekki með forræði á sakarefninu auk þess sem heimilt væri að koma að nýjum málsástæðum og gögnum við meðferð þess. Þá yrðu lægra sett stjórnvöld við meðferð kærumála m.a. að gæta hlutlægni og stuðla að því eftir föngum að endanleg niðurstaða máls byggðist á réttum atvikum og yrði í samræmi við lög. Við meðferð málsins á kærustigi hefði ekki getað ráðið úrslitum að  A hefði ekki haft uppi þá málsástæðu á lægra stjórnsýslustigi að vinnuveitandi hefði ekki ætlað að greiða laun fyrir „prófanir“.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A aftur til meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis af hans hálfu, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakinu væru í álitinu. Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að betur yrði gætt að grunnreglum stjórnsýsluréttar við framsetningu málatilbúnaðar hennar á kærustigi í framtíðinni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 26. apríl 2022.