Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11599/2022)

Kvartað var yfir afskiptum rektors Háskóla Íslands af máli fyrir siðanefnd skólans. 

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en rektor hefði með bréfi svarað fyrirspurn um ráðningarsamband háskólans og tiltekins manns án þess að hafa afskipti af máli viðkomandi hjá siðanefndinni. Með hliðsjón af því og þar sem ekki lá annað fyrir en að málið væri enn til meðferðar hjá nefndinni var ekki tilefni til frekari athugunar á kvörtuninni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 14. mars sl. f.h. A yfir afskiptum rektors af máli hans fyrir siðanefnd Háskóla Íslands sem og aðkomu rektors að skipun nýrrar siðanefndar 1. mars sl. í kjölfarið.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að rektor hafi með bréfi sínu 31. janúar sl. svarað fyrirspurn um ráðningarsamband háskólans og tiltekins manns án þess að hafa afskipti af máli umbjóðanda yðar hjá siðanefnd skólans. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur annað fyrir en að málið fyrir siðanefndinni sé enn til meðferðar er ekki tilefni til frekari athugunar á kvörtun yðar að svo stöddu, enda leiðir af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að hann fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en meðferð þess er lokið innan stjórnsýslunnar. Það athugast að með þessu hefur engin efnisleg afstaða verið tekin til þess sem kom fram í áðurnefndu bréfi rektors. Ef umbjóðandi yðar telur ástæðu til getur hann leitað aftur til umboðsmanns þegar málið fyrir siðanefnd hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.