Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11626/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Reykjavíkurborgar um að breyta starfi viðkomandi. 

Af gögnum málsins varð ráðið að ákvörðun hefði ekki verið tekin heldur hefði viðkomandi verið gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða breytingu. Málið var því ekki til lykta leitt og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. mars sl. yfir ákvörðun Reykjavíkurborgar um að breyta starfi yðar hjá sveitarfélaginu.

Af kvörtun yðar og gögnum sem fylgdu henni verður ráðið að umrædd ákvörðun hafi ekki verið tekin, heldur hafi yður 16. þessa mánaðar verið gefinn kostur á að tjá yður um fyrirhugaða breytingu á störfum og verksviði yðar, sem þér hyggist gera. Ástæða þess að fjallað er um þessa stöðu málsins er sú að af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að hann fjallar að jafnaði ekki um mál sé það enn til meðferðar innan stjórnsýslunnar. Þar sem það á samkvæmt framangreindu við um kvörtunarefni yðar eru ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu. Þegar málið hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar getið þér leitað til umboðsmanns á ný teljið þér þá efni til þess og verður þá metið hvort skilyrði séu uppfyllt til að taka málið til nánari athugunar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.