Kirkjumál og trúfélög. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11764/2022)

Kvartað var yfir samþykkt kirkjuþings um að breyta starfsreglum um tiltekið skipulag kirkjunnar í héraði þannig að fjögur prestaköll sameinuðust í eitt.

Í lögum um þjóðkirkjuna segir að hún ráði starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka og það sé verkefni kirkjuþings að setja starfsreglur um málefni hennar. Ákvarðanir og athafnir innan þjóðkirkjunnar tilheyra því að jafnaði ekki þeirri stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sem starfssvið umboðsmanns tekur til og voru þar með ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, B og C, [...], 4. júlí sl. yfir samþykkt 62. kirkjuþings 28. mars sl. um að breyta starfsreglum nr. 1026/2007, um skipulag kirkjunnar í héraði, þannig að Breiðabólstaðar-, Melstaðar-, Skagastrandar- og Þingeyraklausturs­prestakall í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi sameinaðist í eitt prestakall sem heitir Húnavatnsprestakall.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siða­reglur. Í samræmi við þetta hlutverk er kveðið á um það í 1. mgr. 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar tekur það einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem nánar var rakið í bréfum mínum 8. og 29. júní sl. í málum nr. 10990/2021 og 11730/2022, sem eru birt á vefsíðu embættisins, leiðir af gildandi lögum um þjóðkirkjuna, nr. 77/2021, að litið er á hana sem sjálfstætt trúfélag í stað opinberrar stofnunar. Ákvarðanir og athafnir innan þjóðkirkjunnar tilheyra því að jafnaði ekki þeirri stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sem starfssvið umboðsmanns tekur til, þótt á því kunni að vera undantekningar.

Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2021 segir að þjóðkirkjan ráði starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka og samkvæmt 8. gr. sömu laga er það verkefni kirkjuþings að setja starfsreglur um málefni hennar. Að teknu tilliti til ákvæða laganna og í ljósi stöðu kirkjunnar sem sjálfstæðs trúfélags verður ekki ráðið að kvörtun yðar beinist að ákvörðun sem telst til þeirrar stjórnsýslu sem starfssvið umboðsmanns tekur til samkvæmt fyrrgreindri 3. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan greinir brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og læt ég málinu því hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.