Dómstólar og réttarfar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11706/2022)

Kvartað var yfir að ekki hefði gefist nægur tími til að flytja mál við aðalmeðferð sakamáls fyrir Landsrétti.

Þótt kvörtunin beindist að dómsmálaráðuneytinu varð ráðið af efni hennar og ákvæðum laga um meðferð sakamála að athugasemdirnar lytu að störfum landsréttardómara við meðferð tiltekins sakamáls. Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til dómstóla voru ekki forsendur til að hann fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi bent á að freista mætti þess að reka erindið fyrir nefnd um dómarastörf.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 30. þessa mánaðar yfir því að yður hafi ekki gefist nægur tími til þess að flytja mál yðar við aðalmeðferð saka­máls fyrir Landsrétti.

Um meðferð sakamála er fjallað í samnefndum lögum nr. 88/2008. Í niðurlagi 4. mgr. 165. gr. laganna er kveðið á um að dómara sé rétt að inna aðila eftir því hve langan tíma þeir þurfi fyrir málflutnings­ræður við aðalmeðferð og ákveði dómari síðan lengd hennar í ljósi þess. Þá segir í 4. mgr. 166. gr. sömu laga að munnlegur málflutningur fari fram í þeirri röð að ákærandi tali fyrst, því næst sá sem fari með einkaréttarkröfu ef því er að skipta og síðan ákærði. Að því loknu geti þeir í sömu röð fært fram andsvör af sinni hálfu. Flytji verjandi málið fyrir ákærða sé honum sjálfum heimilt að taka stuttlega til máls í lok aðalmeðferðar. Í málsgreininni er síðan mælt fyrir um að dómari stýri málflutningi og gæti þess að ræðumaður haldi sig við efnið og að málflutningur sé glöggur og fari ekki út fyrir þau mörk sem sæmandi er í þinghaldi. Dómari geti takmarkað málfrelsi eða stöðvað mál­flutning þess sem lagar sig ekki að áminningum hans eða fari að mun fram úr þeim tíma sem hefur verið áætlað að málflutningur hans muni taka.

Þótt kvörtun yðar beinist að dómsmálaráðuneytinu verður ráðið af efni hennar og framangreindum lagaákvæðum að athugasemdir yðar lúti að störfum landsréttardómara við meðferð tiltekins sakamáls. Af þeim sökum skal þess getið að samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Það fellur því utan við starfssvið umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan eru ekki uppfyllt skil­yrði til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar og er athugun á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Athygli yðar er þó vakin á því að samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, er hlutverk nefndar um dómarastörf að taka við og leysa úr kvörtunum þess sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum, sbr. nánar ákvæði 47. og 48. gr. sömu laga. Teljið þér tilefni til þess getið þér því freistað þess að beina erindi yðar til nefndar­innar.