Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11807/2022)

Kvartað var yfir dvöl á hjúkrunarheimili.

Þar sem erindið var til umfjöllunar hjá landlækni voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 15. ágúst sl. en af erindi sem fylgdi henni má ráða að athugasemdir yðar tengist einkum dvöl yðar á hjúkrunar­heimili. Samkvæmt kvörtuninni hafið þér einnig sent erindið til landlæknis.

Um landlækni gilda lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, en samkvæmt e-lið 1. mgr. 4. gr. laganna er meðal verkefna embættisins að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. nánar ákvæði II. og III. kafla laganna. Ástæða þess að framan­greint er rakið er sú að af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þar kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem annað liggur ekki fyrir en að athugasemdir yðar séu enn til athugunar hjá embætti landlæknis, sem hefur samkvæmt framangreindu verið falið með lögum að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, eru ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þegar mál yðar hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar getið þér leitað til umboðsmanns á ný teljið þér þá tilefni til þess.