Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi.

(Mál nr. 11818/2022)

Kvartað var meðferð landlæknis á umsókn um leyfi til að starfa sem næringarráðgjafi, einkum kröfu um að lögð yrðu fram nánar tiltekin gögn.  

Þar sem umsóknin var enn til meðferðar hjá landlækni voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. september 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. ágúst sl. yfir meðferð landlæknis á umsókn yðar um leyfi til að starfa sem næringarráðgjafi. Athugasemdir yðar lúta einkum að kröfu embættisins um að þér leggið fram nánar tiltekin gögn.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, veitir landlæknir umsækjendum leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi að uppfylltum skilyrðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 29. gr. laganna. Í 2. mgr. 12. gr. laganna segir að synjun landlæknis um veitingu starfsleyfis sé kæranleg til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinni í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Í símtali við starfsmann skrifstofu umboðsmanns 8. september sl. kom fram að umsókn yðar væri enn til meðferðar hjá landlækni. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þegar mál yðar hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar getið þér leitað til umboðsmanns á ný teljið þér þá tilefni til þess.