Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11852/2022)

Kvartað var yfir álagningu skipulagsgjalds sem fyrirhugað væri að leggja á fasteign.  

Þar sem ekki varð ráðið að málinu væri lokið hjá Þjóðskrá Íslands eða eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða hvort það væri enn til meðferðar né heldur hvort leitað hefði verið til yfirfasteignamatsnefndar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. október 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. september sl. sem ráðið verður að beinist að álagningu skipulagsgjalds, sem fyrirhugað er að leggja á fasteign yðar í Kópavogi. Með kvörtun yðar fylgdi afrit af ódagsettri áskorun Þjóðskrár Íslands um að þér létuð meta fasteignina til brunabóta innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins. Að öðrum kosti myndi stofnunin reikna brunabótamat án skoðunar

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum á meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Rétt er að taka fram að með lögum nr. 36/2022, um breytingar á ýmsum lögum m.a. lögum nr. 48/1994, um brunatryggingar, sem tóku gildi 1. júlí sl., fluttist framkvæmd brunabótamats samkvæmt síðastnefndu lögunum frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í 1. gr. laga nr. 48/1994 er mælt fyrir um skyldu húseigenda til að brunatryggja allar húseignir. Í 2. gr. er fjallað nánar um framkvæmd matsins en þar segir í 10. mgr. að  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé heimilt að reikna brunabótamat án skoðunar. Skal útreikningur þessi gerður á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja í fasteignaskrá og í öðrum þeim gögnum sem hún kann að hafa yfir að ráða. Loks bendi ég á að í 5. gr. laganna kemur fram að ágreiningi um brunabótamat megi skjóta til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður ráðið af kvörtun yðar hvort máli yðar sé lokið hjá Þjóðskrá Íslands eða eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða hvort það sé enn til meðferðar. Þá liggur ekki heldur fyrir hvort þér hafið leitað til yfirfasteignamatsnefndar með téða ákvörðun um brunabótamat liggi hún fyrir. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.