Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11853/2022)

Kvartað var yfir því að Alþingi hefði ekki brugðist við beiðni um aðgang að tilgreindri úttekt Ríkisendurskoðunar.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og stofnana þess voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. október 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. september sl. sem ég ræð að lúti að því að Alþingi hafi enn ekki brugðist við beiðni yðar um aðgang að tilgreindri úttekt Ríkisendurskoðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt a-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Í samræmi við síðastnefnt ákvæði fellur það almennt utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um stjórnsýslu Alþingis.

Með vísan til framangreinds fellur það utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að fjalla um kvörtun yðar yfir viðbrögðum Alþingisvið fyrrgreindu erindi yðar. Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.