Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 11900/2022)

Kvartað var yfir þeirri framkvæmd sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að taka ekki við húsaleigusamningum til þinglýsingar sem undirritaðir hafa verið með rafrænni undirritun.

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um málið. Benti hann á að kvörtunin beindist með almennum hætti að ákveðnum starfsháttum sýslumanns en ekki úrlausn vegna þinglýsingar tiltekins skjals. Þá lægi ekki fyrir afstaða sýslumanns í málinu. Að henni fenginni gæti viðkomandi freistað þess að koma ábendingu varðandi starfshættina á framfæri við dómsmálaráðuneytið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl. yfir þeirri framkvæmd sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að taka ekki við húsaleigusamningum sem undirritaðir hafa verið með rafrænni undirritun til þinglýsingar.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Þá leiðir af framangreindu að umboðsmaður getur ekki tekið mál til athugunar í þeim tilvikum þegar afstaða æðra stjórnvalds, liggur ekki fyrir, enda sé eðlilegt að viðkomandi freisti þess fyrst að fá afstöðu æðra stjórnvalds til þeirra atriða sem kvörtun lýtur að.

Af kvörtun yðar er ljóst að hún beinist með almennum hætti að ákveðnum starfsháttum sýslumanns við meðferð þinglýsingamála en ekki að úrlausn hans vegna þinglýsingar tiltekins skjals, sbr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Þá liggur fyrir, samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar, að þér hafið nýlega borið athugasemdir yðar undir sýslumann en ekki verður ráðið að yður hafi borist afstaða hans. Af þessu tilefni bendi ég yður á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, heyra embætti sýslumana undir dómsmálaráðuneytið. Með vísan til framangreinds getið þér, að fenginni afstöðu sýslumanns, freistað þess að koma ábendingu varðandi starfshætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á framfæri við dómsmálaráðuneytið. Með vísan til framangreinds og í ljósi áðurnefnds ákvæðis 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru að svo stöddu ekki uppfyllt skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.