Almannatryggingar.

(Mál nr. 11889/2022)

Óskað var eftir áliti umboðsmanns á framkvæmd laga um almannatryggingar, nánar tiltekið framkvæmd fjármála- og efnahagsráðuneytisins á hækkun bóta almannatrygginga skv. 69. gr. laganna. Jafnframt varð ráðið að kvartað væri yfir því að ráðuneytið hefði ekki brugðist við erindum sama efnis.  

Það er ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um þann þátt erindisins. Þá taldi umboðsmaður ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum ráðuneytisins að tilefni væri til að taka það til frekari athugunar að svo stöddu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. október sl. Samkvæmt henni óskið þér eftir því að umboðsmaður veiti álit sitt á framkvæmd laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, nánar tiltekið framkvæmd fjármála- og efnahagsráðuneytisins á hækkun bóta almannatrygginga samkvæmt 69. gr. laganna. Jafnframt verður ráðið að þér kvartið yfir því að sama ráðuneyti hafi ekki brugðist við erindum yðar frá 22. júlí og 4. október sl. sem lúta að sama efni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis, er hlut­verk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir m.a. að það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Því eru ekki skil­yrði að lögum fyrir því að ég fjalli frekar um erindi yðar að því leyti sem það lýtur almennt að téðri framkvæmd fjármála- og efnahagsráðherra.

Af þeim gögnum sem fylgdu kvörtun yðar verður þó ráðið að þér hafið átt í nokkrum samskiptum við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna málsins en þér óskuðuð eftir upplýsingum um hækkun bóta almannatrygginga frá ráðuneytinu 17. mars sl. Því erindi svaraði ráðuneytið 24. júní. Óskuðuð þér frekari skýringa með áðurgreindu erindi 22. júlí sl. Í kjölfarið beinduð þér erindi 30. ágúst sl. til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna tafa ráðuneytisins á að svara erindum yðar. Með úrskurði nefndarinnar 21. september í máli nr. 434/2022 var kærunni vísað frá með vísan til þess að ákvarðanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins sæti ekki endurskoðun nefndarinnar. Í 1. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála, kemur fram að nefndin úrskurði í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Í 13. gr. laga nr. 100/2007 er fjallað um slíka kæruheimild sem bundin er við ágreining sem rís um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum. Í ljósi þess að kæra yðar til úrskurðarnefndarinnar laut að málsmeðferð fjármála- og efnahagsráðuneytisins, en ákvarðanir þess sæta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við frávísun nefndarinnar.

Í kjölfarið óskuðuð þér að nýju eftir skýringum ráðuneytisins með tveimur erindum 4. október sl. Af því tilefni tek ég fram að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkurt svigrúm í þessu efni. Ég tel að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á svörum ráðuneytisins að tilefni sé til að ég taki erindi yðar til frekari athugunar. Horfi ég þá til þess að þér ítrekuðuð erindið nýlega.

Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik hafi svar ekki borist yður innan hæfilegs tíma með kvörtun þar að lútandi.