Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11949/2022)

Kvartað var yfir ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og yfirskattanefnd vegna endurákvörðunaropinberra gjalda.

Þar sem ljóst var að kærur vegna málanna bárust til yfirskattanefndar að liðnum kærufresti og utan þess frests sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu hennar að vísa kærunum frá.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. desember 2022. 

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. desember sl. sem beinist að ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og yfirskattanefnd. Lýtur kvörtunin annars vegar að endurákvörðun opinberra gjalda yðar gjaldárin 2015 og 2016 svo og virðisaukaskatts 2014 og 2015 og hins vegar endurákvörðun opinberra gjalda félagsins Geri allt slf. gjaldárin 2016-2018 og virðisaukaskatts félagsins árin 2015-2018 sem ríkisskattstjóri úrskurðaði um 9. febrúar 2021. Með úrskurðum yfirskattanefndar nr. 143/2022 í máli nr. 116/2022 og nr. 144/2022 í máli nr. 117/2022 6. desember sl. var kærum yðar og félagsins vegna ofangreindra endurákvarðana vísað frá sökum þess að þær hefðu borist að liðnum kærufresti.

Líkt og fram kemur í úrskurðum yfirskattanefndar er kærufrestur til nefndarinnar þrír mánuðir frá dagsetningu þeirrar ákvörðunar ríkisskattstjóra sem um ræðir, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um þau tilvik þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Þar er mælt fyrir um að vísa skuli kæru frá, hafi hún borist að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölulið 1. mgr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölulið sömu málsgreinar. Þá segir í 2. mgr. 28. gr. að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. er sá ársfrestur for­takslaus, en af því leiðir að þær undantekningar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. ákvæðisins koma ekki til skoðunar hafi kæra borist að liðnum ársfresti. 

Kærur yðar og félagsins til yfirskattanefndar bárust 18. ágúst sl. þegar eitt og hálft ár voru liðin frá því umrædd ákvörðun var tekin. Er því ljóst að sá ársfrestur sem kveðið er á um í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga var þá liðinn. Að því virtu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu yfirskattanefndar að vísa frá kærum yðar og félagsins.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.