08. júní 2011

Heimsókn til Vestmannaeyja

Hinn 1. júní sl. heimsóttu starfsmenn umboðsmanns Alþingis Vestmannaeyjar og kynntu sér starfsemi Vestmannaeyjabæjar og sýslumannsembættisins þar.

Á fundum með starfsfólki þessara stofnana var meðal annars var rætt um sifjamál, lögreglumál, almannatryggingar, félagsþjónustu, skólamál, barnaverndarmál og atvinnumál. Starfsfólk beggja stofnana sagði frá starfsháttum sínum við afgreiðslu og meðferð mála og svöruðu fyrirspurnum umboðsmanns og starfsmanna hans. Þessi heimsókn var liður í því að þeir sem koma að úrlausn mála hjá umboðsmanni Alþingis afli á vettvangi upplýsinga um starfshætti innan stjórnsýslunnar og þá m.a. með það í huga hvernig almennt er staðið að afgreiðslu á málum þegar borgararnir leita til stjórnsýslunnar og hvernig einstakar stofnanir fylgja þeim réttaröryggisreglum sem stjórnsýslulögin og aðrar stjórnsýslureglur kveða á um við meðferð mála.