21. júní 2011

Styrkir til kaupa á öryggiskallkerfi

Hinn 14. október 2010 lauk umboðsmaður Alþingis athugun sinni á kvörtun einstaklings sem hafði verið synjað um styrk til kaupa á öryggiskallkerfi.

Ástæða þess að athuguninni lauk var að úrskurðarnefnd almannatrygginga ákvað að endurupptaka málið og því var ekki talið tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina.

Þrátt fyrir lyktir málsins ritaði umboðsmaður Alþingis heilbrigðisráðherra bréf og lýsti þeirri afstöðu sinni að meinbugir kynnu að vera á ákvæði kafla 2151 í fylgiskjali með reglugerð nr. 1138/2008, um styrki vegna hjálpartækja. Í ákvæðinu var það gert að skilyrði fyrir styrkveitingu til kaupa á öryggiskallkerfi að umsækjandi byggi einn eða samvistaraðili væri af heilsufarsástæðum ófær um að veita aðstoð, ynni utan heimilis fullan vinnudag eða væri orðinn 67 ára. Umboðsmaður taldi áhöld um hvort þessi takmörkun væri í samræmi við 26. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar og taldi rétt væri að heilbrigðisráðuneytið tæki afstöðu til þess hvort og þá hvaða breytingar þyrfti að gera á reglugerðarákvæðinu. Hann óskaði þess að ráðuneytið veitti sér upplýsingar um viðbrögð sín vegna þessarar ábendingar.

Í svarbréfi heilbrigðisráðuneytisins, dags. 28. desember 2010, var upplýst um að reglugerðinni hefði nú verið breytt á þá leið að víkja mætti frá skilyrði um að umsækjandi búi einn ef hann býr við svo mikla fötlun að hann getur ekki hringt í síma eða farsíma. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins.