21. júní 2011

Ítarlegri upplýsingar um afgreiðslu mála

Þegar umboðsmaður Alþingis tekur mál til athugunar er honum m.a. heimilt að ljúka því með áliti á því hvort athöfn stjórnvalds hafi brotið í bága við lög, vandaða stjórnsýsluhætti eða siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Máli getur þó lokið af ýmsum öðrum ástæðum, ýmist eftir frumathugun þess eða efnismeðferð. Sem dæmi má nefna er ef mál heyrir ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er skilgreint í lögum, ef máli hefur ekki verið skotið til æðra stjórnvalds, ef skýringar stjórnvaldsins á afgreiðslu máls eru taldar fullnægjandi og ef stjórnvald ákveður að endurupptaka mál. Í slíkum tilvikum lýkur umboðsmaður málinu með bréfi til málsaðila þar sem honum eru eftir atvikum veittar leiðbeiningar um hvernig hann getur snúið sér, s.s. til þess að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds. Í sumum tilvikum skrifar umboðsmaður viðkomandi stjórnvaldi einnig bréf og kemur á framfæri athugasemdum eða ábendingum.

Við árslok 2010 hafði umboðsmaður Alþingis afgreitt 6143 mál frá því að embættið tók til starfa. Þar af voru 957 álit. Öll álit eru birt á heimasíðu umboðsmanns Alþingis en aðrar afgreiðslur hafa ekki verið birtar nema í sérstökum tilvikum. Eitt af markmiðum með nýrri og endurbættri heimasíðu er að veita með ítarlegri hætti en áður upplýsingar um lyktir mála sem umboðsmaður hefur haft til athugunar. Framvegis verða því almennt birtar stuttar reifanir þeirra mála sem umboðsmaður hefur lokið með öðrum hætti en áliti, að frátöldum þeim málum þar sem aðili hefur fallið frá kvörtun. Reifanirnar verður hægt að nálgast með aðstoð leitarvélar. Álit umboðsmanns verða að sjálfsögðu birt áfram á heimasiðunni.

Það er von umboðsmanns Alþingis að þetta fyrirkomulag auki gegnsæi um störf hans og verði bæði almenningi og stjórnvöldum til gagns og upplýsingar.