16. ágúst 2011

Lögheimili þeirra sem dveljast erlendis við nám

Hinn 8. ágúst 2011 lauk umboðsmaður Alþingis athugun á framkvæmd Þjóðskrár á lögheimilisskráningu þeirra sem dveljast erlendis við nám (mál nr. 5783/2009).

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, kemur m.a. fram að sá sem dvelst erlendis við nám getur áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.

Tildrög athugunar umboðsmanns á framkvæmd þessa atriðis voru að í tengslum við kvörtun einstaklings yfir því að Þjóðskrá hefði skráð lögheimili hans erlendis bárust umboðsmanni m.a. þau svör frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en Þjóðskrá var þá skrifstofa í því ráðuneyti, að sú venja hefði skapast að vottorð frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) um að nám viðkomandi manns væri metið lánshæft væri tekið gilt sem sönnun fyrir því að ákvæðum lögheimilislaga væri fullnægt. Í svörunum kom jafnframt fram að við túlkun á 9. gr. lögheimilislaga væri ekki við lögskýringargögn að styðjast og í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögunum væri ekki að finna skilgreiningu á orðinu námsmaður. Því hefði verið stuðst við skilgreiningu í reglugerð nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám samkvæmt ákvæðum laga um opinber gjöld, þótt hún fjallaði um skattalega heimilisfesti.

Athugun á máli viðkomandi einstaklings lauk en ákveðið var að leita frekari skýringa á almennri framvæmd á lögheimilisskráningu námsmanna sem dveljast erlendis. Meðal atriða sem umboðsmaður leitaði skýringa á voru hvers vegna lánshæfi náms hjá LÍN væri gert að skilyrði fyrir skráningu lögheimilis á Íslandi og hvers vegna talið væri að heimild lögheimilislaga væri bundin við nám á framhalds- og háskólastigi. Þá var skýringa óskað á því hvers vegna talið væri heimilt að líta til skilgreiningar í reglugerð nr. 648/1995 við afmörkun á inntaki ákvæðis í lögum nr. 21/1990.

Í svarbréfi Þjóðskrár Íslands til umboðsmanns , dags. 13. júlí 2011, kom m.a. fram að ljóst væri að gengið hefði verið of strangt fram og að viðmið stofnunarinnar hefðu verið of ströng. Horfið yrði til fyrri framkvæmdar og það metið sjálfstætt í hverju tilviki hvort ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1990 ættu við á grundvelli gagna um viðkomandi menntastofnun, tilhögun náms, próftöku og viðurkenningu námsins í námslandinu.

Í ljósi viðbragða Þjóðskrár Íslands taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar, að minnsta kosti að sinni, á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, en lagði ríka áherslu á að ákvörðun um hvort lögheimili manns væri skráð hér á landi kynni að hafa verulega þýðingu fyrir hagsmuni hlutaðeigandi, m.a. í heilbrigðis- og almannatryggingarkerfum. Það væri því afar mikilvægt að Þjóðskrá Íslands vandaði til málsmeðferðar í þessum tilvikum.